149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti Flokks fólksins, áliti 4. minni hluta hv. fjárlaganefndar.

Stefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu er að látið er undir höfuð leggjast að gera gangskör að því að bæta sem vert væri kjör þeirra sem lakast standa í íslensku samfélagi. Greiðslur í almannatryggingakerfinu duga ekki fyrir viðunandi framfærslu, haldið er fast við að hinir tekjulægstu beri þyngstu skattbyrðarnar og öryrkjar hafa ekki enn verið leystir úr hinni manngerðu fátæktargildru sem þeim hefur verið búin, allt of lengi. Sjálfsbjargarviðleitni þeirra sem hafa vilja og getu til að auka við sig vinnu og bæta með því sinn hag er drepin í dróma með óhóflegri skattlagningu og skerðingu.

Þá hefur ríkisstjórnin ekkert aðhafst til að draga úr verðtryggingu lána þrátt fyrir að gögn sem frá henni sjálfri eru runnin staðfesti að hátt í tíu þúsund fjölskyldur hafi misst heimili sitt frá hruni, ekki færri en 30.000 manns, rétt eins og hér hefðu gengið yfir ógnvænlegar náttúruhamfarir eða stríðsátök. Þá staðfesta upplýsingar frá stjórnvöldum skaðvænleg áhrif húsnæðisliðar vísitölunnar á fjárhag heimilanna án þess að þetta hafi orðið ríkisstjórninni tilefni til aðgerða.

Fyrirhugað átak í innviðum landsins veldur vonbrigðum í ljósi sterkra yfirlýsinga um þau efni í aðdraganda alþingiskosninganna 2017.

Ekki hefur tekist að marka landinu heilbrigðisstefnu og margar heilbrigðisstofnanir búa við ófullnægjandi fjárhag. Áfengis- og fíknisjúkdómar sem geisa nú eins og faraldur meðal þjóðarinnar kalla á mun sterkari viðbrögð af hálfu stjórnvalda en enn hafa birst. Breyttur heimur kallar á árvekni í löggæslu og landamæraeftirliti og að vel sé búið að þeim stofnunum sem með þau mál fara.

Reynslan sýnir að bæta má að mun framsetningu fjárlagafrumvarps þannig að það fullnægi kröfum samtímans um gagnsæi og skilvirkni.

Í sameiginlegu áliti fjárlaganefndar um þetta efni eru gagnlegar ábendingar sem 4. minni hluti stendur heils hugar að. Þar á meðal eru athugasemdir um að draga úr vægi ólíkra reikningsskilastaðla í frumvarpinu og annað af því tagi.

Fjárlagafrumvarp þarf að innihalda greiningu fjármálaráðuneytisins á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins og þýðingu þess fyrir atvinnufyrirtæki og heimili landsmanna. Enn fremur þarf að liggja fyrir ítarleg greining á áhrifum óvissuþátta með nauðsynlegum sviðsmyndum eins og tíðkast í þeim efnum.

Í 4. gr. laga um opinber fjármál kemur fram að fjármálastefnu skuli skipt í m.a. stefnu um umfang og afkomu. Í þingsályktun um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022 kemur fram að heildarafkoma fyrir árið 2019 skuli nema 1,2% af vergri landsframleiðslu, þar af A-hluti ríkissjóðs 1%. Við framlagningu breytingartillagna meiri hluta nefndarinnar hefur komið fram að hlutfallið nær ekki fyllilega þessu marki. Þó að hér sé ekki ætlunin að fara að gera stórt mál úr aukastöfum þá er um að ræða svokallað prinsipp sem nauðsynlegt er að sé virt. Rekstrarafgangur ríkissjóðs þarf að vera í samræmi við fjármálaáætlun og fjármálastefnu.

Að mati 4. minni hluta er ekki við hæfi að fjárlaganefnd, sem hefur með höndum eftirlit með fjárhagsmálefnum ríkisins, leyfi sér að skila minni afgangi en skylt er lögunum samkvæmt. Er ríkisstjórnin hvött til að gera hér á bragarbót með nýrri breytingartillögu áður en 2. umr. er úti. Upp vakna spurningar um trúverðugleika fjárlaganefndar við eftirlit með framkvæmd fjárlaga ef hún hefur sjálf uppi lausatök í þessum efnum. Ég fagna viðbrögðum hv. formanns fjárlaganefndar um að bæta hér úr skák milli umræðna, eins og fram kom í andsvari við athugasemd frá mér í morgun.

Vík ég nú aðeins að varasjóðnum. 4. minni hluti gerði í vor athugasemdir á vettvangi fjárlaganefndar við fyrirætlanir fjármála- og efnahagsráðherra um að nýta almenna varasjóðinn til viðhalds vega og nýframkvæmda í vegamálum en ráðherra taldi að verja mætti varasjóðnum til þeirra verka, sem út af fyrir sig er góðra gjalda vert. 4. minni hluti fékk ekki séð að sú fyrirætlan samrýmdist reglum um sjóðinn eins og þær eru tilgreindar í 24. gr. laga um opinber fjármál og að beiðni hans leitaði fjárlaganefnd álits Ríkisendurskoðunar í málinu sem taldi, eftir að ráðherra frestaði í fyrrgreindum áformum sínum, að ekki þyrfti að gefa út álit í málinu. Leitaði fjárlaganefnd aftur til Ríkisendurskoðunar nú í haust eftir hvatningu 4. minni hluta en álit Ríkisendurskoðunar hefur enn ekki borist. Að mati 4. minni hluta er bagalegt að Ríkisendurskoðun hafi ekki treyst sér til að túlka þær reglur sem gilda um almenna varasjóðinn. Þetta er ekki síst áhyggjuefni í ljósi þess að mikilvægt er að fjárlaganefnd fái notið ráðgjafar Ríkisendurskoðunar sem helsta ráðgjafa síns í fjárhagsmálefnum ríkissjóðs.

Þá mun ég víkja að fjármögnun með sölu losunarheimilda sem bar fyrir augu hv. fjárlaganefndarmanna á allra síðustu stigum. Ég ætla að leyfa mér að vitna í bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins til fjárlaganefndar frá 13. nóvember sl., þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Þá hækka tekjur af sölu losunarheimilda í eigu íslenska ríkisins á uppboðsmarkaði á árinu 2019. Tekjurnar voru áætlaðar 1,3 milljarðar kr. í fjárlagafrumvarpinu en nú er lagt til að áætlunin verði hækkuð í 4 milljarða kr. Yrðu það fyrstu tekjur ríkissjóðs af slíkri sölu. Ísland og Noregur hafa fylgst að við lögformlegan undirbúning sölunnar og er hann nú langt kominn. Forsendur áætlunarinnar eru þær að um 85% heimilda Íslands verði seldar á árinu 2019, á verðinu 15 evrur (fyrir hvert tonn koltvísýrings), og skýrist hækkunin frá fyrri áætlun af mikilli verðhækkun á markaðnum á þessu ári. Í fjárlagafrumvarpinu segir um þetta mál á bls. 118: „Þar af er búist við að ríkissjóður fái í fyrsta sinn tekjur af sölu losunarheimilda í ETS-kerfinu sem nemi 1,3 milljörðum kr. og er þá miðað við að seld verði liðlega 70% af heimildum í eigu Íslands í ársbyrjun 2019.““

Fjórði minni hluti vekur athygli á því að við kynningu þessarar tillögu við framlagningu breytingartillagna ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umr. vísuðu sérfræðingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem komu sem gestir á fund fjárlaganefndar til nánari upplýsinga frá umhverfisráðuneytinu þar sem fjármálaráðuneytið þekkti ekki nógu vel til málsins og gæti því ekki gert grein fyrir því með fullnægjandi hætti. Umræddar upplýsingar hafi ekki verið lagðar fram og hefur tillagan því ekki hlotið efnislega kynningu á vettvangi fjárlaganefndar þó svo að hún sé hluti af tillögugerð ríkisstjórnarinnar í fjárlagagerðinni.

Tillaga ríkisstjórnarinnar er athyglisverð þar sem fram kom hjá forstjóra Umhverfisstofnunar á umhverfisþingi í Hörpu í október 2017 að allt stefndi í að losun gróðurhúsalofttegunda fari fram úr heimildum Íslands samkvæmt skuldbindingum landsins samkvæmt Kyoto-bókuninni og því þyrfti Ísland annaðhvort að kaupa auknar heimildir eða draga hratt og verulega úr losun sem virðist illmögulegt. Þar kom fram hjá forstjóranum, með leyfi forseta:

„Við erum líklegast að fara yfir þær losunarheimildir og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist á svokölluðu Kyoto 2 tímabili sem er tímabilið 2013–2020. Við erum komin með raunlosunartölur fyrir árin 2013–2015. Á grunni þeirra erum við að framreikna okkur. Miðað við þær tölur lítur út fyrir það að við þurfum annaðhvort að draga mjög hratt og verulega úr losun, sem er raunverulega illa mögulegt, eða kaupa heimildir.“

Samkvæmt greiningu stofnunarinnar var talið að Ísland þyrfti að kaupa auknar heimildir til að standa við skuldbindingar sínar, sem nemi um 3,6 milljónum tonna af koldíoxíðígildum fyrir tímabilið í heild. Jafnframt kom fram að Íslandi mundi einnig reynast erfitt að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu fyrir tímabilið 2021–2030. Er ítarlegri upplýsingar um þetta að finna í áliti 4. minni hluta.

Fjórði minni hluti vekur athygli á að sú stefna sem birtist í fjárlagafrumvarpinu gengur gegn markmiðum umhverfisyfirvalda og þar með ríkisstjórnarinnar sem benda á að kaupa þurfi heimildir til að unnt sé að standa við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Vert er að benda á að samkvæmt margræddri McKinsey-skýrslu um áskoranir í efnahagsmálum þarf að auka árlegan hagvöxt verulega og að mati 4. minni hluta er ekki unnt miðað við núverandi tækni að auka þjóðarframleiðslu hér á landi án þess að auka losun og því vandséð að unnt sé að selja heimildir eins og staðan er nú. Fátt virðist benda til annars, miðað við nýjustu skýrslur um ástand í umhverfismálum, um að það sé að verða um seinan að ná tökum á losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, en að verðmæti losunarheimilda muni hækka verulega á komandi tíð en ekkert mat á framtíðarverðmæti skuldbindinganna fylgir í bréfi ráðuneytisins þannig að ógerlegt er fyrir þingheim að átta sig á hvort sölutekjur nú virðist í reynd fela í sér núvirt gjöld sem nemi verulegum fjárhæðum. 4. minni hluti fær ekki betur séð en gripið hafi verið til þess ráðs í fjárlagagerðinni að búa til 2,7 milljarða kr. viðbótartekjur til að ríkisstjórnin komist hjá því að leggja á nýja skatta eða draga saman gjöld til að loka fjárlagagatinu. Því til viðbótar má bæta 1,3 milljarða kr. tekjum af sölu á losunarheimildum í frumvarpinu eða samtals 4 milljörðum kr.

Fjórði minni hluti telur að ríkisstjórninni beri að sýna fram á að fyrrgreind söluáform skili sér þar sem flest benti til þess að óraunhæft sé að selja heimildirnar. 4. minni hluti leggur áherslu á að vandaðar upplýsingar þurfi að liggja fyrir um þetta mál áður en fjárlög verða samþykkt.

Herra forseti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eiga bætur almannatrygginga að hækka um 3,4% um áramót. Útfærsla á þeirri hækkun liggur ekki fyrir. Tekið skal undir þá gagnrýni sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands um fjárlagafrumvarpið varðandi þá leið sem farin hefur verið við hækkun á bótum almannatrygginga þar sem sérstök framfærsluuppbót til örorkulífeyrisþega sem skerðist, eins og tekið er til orða, krónu á móti krónu hefur hækkað umfram almenna hækkun bóta. Auk þess hafa hámarksbætur til þeirra örorkulífeyrisþega sem búa einir hækkað umfram almenna hækkun bóta. Þetta hefur leitt til þess að skerðingar á tekjulægstu lífeyrisþegana hafa aukist og munurinn á lífeyri til þeirra sem búa einir og með öðrum hefur farið vaxandi.

Ljúka verður hið fyrsta við heildarendurskoðun á mats- og greiðslukerfi almannatrygginga vegna örorkulífeyrisþega. Þetta er brýnt til að bæta kjör öryrkja, einfalda almannatryggingakerfið gagnvart þessum hópi með sambærilegum hætti og gert hefur verið gagnvart ellilífeyrisþegum, bæta samspilið við lífeyrissjóðina og auka áherslu á forvarnir, starfsgetu og endurhæfingu.

Þingflokkur Flokks fólksins hefur lagt fram frumvarp með stuðningi þriggja þingmanna Miðflokksins og tveggja þingmanna Pírata um að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna, samanber 23. gr. laga um almannatryggingar. Fram hefur komið ítrekað að fyrir liggur vönduð greinargerð sem staðfestir að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og vel sé hugsanlegt að ríkissjóður gæti jafnvel haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.

Herra forseti. Vík ég þá næst að skerðingum af þeim toga sem kallaðar eru króna á móti krónu. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Flokkur fólksins styður það frumvarp og meðal flutningsmanna þess eru tveir þingmenn flokksins.

Með frumvarpinu er stefnt að minni skerðingu fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega þar sem sérstök uppbót samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð skerðist um 100% vegna allra tekna sem lífeyrisþegar kunna að fá. Slík skerðing hefur í daglegu tali verið nefnd króna á móti krónu skerðing. Einnig skerðast lífeyrisgreiðslur að sama marki og verða því heildartekjur lífeyrisþega óbreyttar þrátt fyrir tekjur annars staðar frá. Þá skerða allar aðrar skattskyldar tekjur uppbótina, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur. Slíkar skerðingar hafa neikvæð áhrif á lífskjör örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Þetta rammgerða kerfi krónu á móti krónu skerðingar leiðir af sér að margir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hafa lítinn sem engan ávinning af því að afla sér tekna með vinnu sé fyrir því vilji og geta. Slíkt fyrirkomulag lítur fram hjá mikilvægi vinnuframlags fatlaðs fólks. Með því að fella brott þetta kerfi myndast hvati til atvinnuþátttöku þeirra sem eiga rétt á hinni sérstöku uppbót.

Fjármagnstekjur skerða framfærsluuppbótina króna á móti krónu. Sama á við um aðrar tekjur, til að mynda mæðra- og feðralaun, dánarbætur og úttekt séreignarsparnaðar. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum með lágar tekjur er því gert ókleift að bæta stöðu sína, jafnvel lítillega með tekjum annars staðar frá. Þetta fyrirkomulag, sem svo er lýst í greinargerð með fyrrgreindu frumvarpi, má með sanni kalla manngerða fátæktargildru.

Skerðing á sérstakri uppbót ellilífeyrisþega til framfærslu vegna annarra tekna var afnumin 2016 þegar kerfi ellilífeyris var einfaldað að mun. Er sjálfsagt réttlætismál að lögfesta sams konar breytingu í þágu örorkulífeyrisþega óháð hugmyndum og ráðagerðum um starfsgetumat.

Flokkur fólksins styður heils hugar framangreint frumvarp um afnám krónu á móti krónu skerðingar og leggur áherslu á að það nái fram að ganga.

Meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Stöðugt fleiri fylla hóp aldraðra á sama tíma og lífslíkur aukast. Framboð á nauðsynlegri þjónustu til þessa þjóðfélagshóps annar hvergi eftirspurn.

Augljóst er hvert stefnir. Eftirspurnin mun halda áfram að aukast í takt við fyrirsjáanlega fjölgun aldraðra í samfélaginu. Brýnt er að huga til framtíðar og ráðast í úrbætur og uppbyggingu með verulegri aukningu fjármuna til þessa málaflokk. Ljóst er að fyrirhuguð fjárveiting til heilbrigðismála aldraðra dugar hvergi til í fjárlögum fyrir árið 2019.

Ef vikið er að stöðu hjúkrunarheimila er ástæða til að gagnrýna hve fjárlagafrumvarpið er ógagnsætt. Á þetta er bent í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skal tekið undir þær ábendingar sem þar koma fram.

Á málefnasviði 25, Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta, er ómögulegt að lesa úr frumvarpinu hversu há framlög lagt er til að ríkissjóður leggi til einstakra stofnana.

Þetta er mjög bagalegt því að fjárhagsstaða einstakra stofnana er mismunandi. Vitað er t.d. að mörg hjúkrunarheimili aldraðra búa við fjársvelti og eru rekin með halla. Sum hver hafa starfað við slík skilyrði um margra ára skeið.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Þá er ógerlegt að átta sig á því hvaða rýmafjöldi eða legudagafjöldi liggur að baki framlaga til öldrunarstofnana og daggjalda. Af þeim sökum er erfitt að henda reiður á hvort um fullnægjandi hækkun sé að ræða með tilliti til aukinnar hjúkrunarþyngdar og hvernig framlögin skila sér til einstakra stofnana.“

Flokkur fólksins telur brýnt að úr þessu verði bætt í fjárlagafrumvarpi í framtíðinni, þannig að fram komi í fylgiskjali fjárlaga hvernig framlög skiptist niður á einstakar stofnanir á tilteknum málefnasviðum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna er að finna eftirfarandi málsgrein um heilbrigðismál aldraðra, með leyfi forseta:

„Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum. Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs gæti nýst í þetta verkefni. Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.“

Þrátt fyrir þessi fögru fyrirheit stjórnarflokkanna er það staðreynd að fjárhagsleg staða hjúkrunarheimila í landinu er mjög alvarleg. Fjármagn hefur ekki fylgt rammasamningi um hjúkrunarheimili sem undirritaður var 2016 og gildir til loka þessa árs. Þessi samningur átti að marka tímamót sem fyrsti heildstæði samningurinn vegna þjónustu hjúkrunarheimila. Hann felur í sér fyrirkomulag sem átti að leysa af hólmi aðra tilhögun þar sem ríkið greiddi einhliða út daggjöld til hjúkrunarheimila.

Nú þegar rétt rúmur mánuður er eftir af gildistíma þessa samnings eru það mikil vonbrigði að upplýsingar berast um að ríkið hafi ekki staðið við hann. Hann hefur ekki rennt styrkari stoðum undir rekstur hjúkrunarheimilanna. Þau hafa búið við niðurskurð og enn stendur til að höggva í sama knérunn með áformum um niðurskurð til hjúkrunarheimilanna á næsta ári, 2020 og 2021. Það er ekki rétt stefna að skera við trog fjárframlög til hjúkrunarheimila því að skortur á þeim leiðir einfaldlega til þess að aldraðir dvelja lengur en ella á sjúkrahúsum með þeim mikla og aukna kostnaði sem því fylgir.

Þessari þróun verður að snúa við. Gera verður nýjan eða framlengdan þjónustusamning við hjúkrunarheimilin í stað þess sem rennur út í árslok og tryggja að þau fái nægt rekstrarfé til framtíðar. Daggjöld þarf að hækka svo þau standi undir rekstri.

Flokkur fólksins vill verja hagsmuni aldraðra og tryggja að hlúð sé að velferð þeirra í hvívetna. Á yfirstandandi þingi hafa þingmenn flokksins, auk allra fjögurra þingmanna Viðreisnar og þriggja þingmanna Miðflokksins, lagt fram tillögu um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra með það að markmiði að hann ræki það markmið sem hann var settur á laggirnar til að framkvæma, þ.e. að standa fyrir byggingum á hjúkrunarheimilum og að standa undir viðhaldi á slíkum mannvirkjum.

Markmið þessarar breytingar er að tryggja að fé Framkvæmdasjóðs aldraðra verði varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagdvalar og byggingar stofnana fyrir aldraða. Því verði einnig varið til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða eins og kveðið er á um í lögunum. Verði frumvarpið að lögum fellur niður bráðabirgðaákvæðið VII í lögunum sem er heimild til þess að „verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða“, eins og þar segir. Það er andstætt hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra að fé sé notað úr honum til reksturs hjúkrunarrýma. Á þetta er m.a. bent í umsögn Alþýðusambands Íslands við fjárlagafrumvarpið.

Fjárlögin valda töluverðum vonbrigðum þegar kemur að mikilvægum málaflokki, sem er málefni öryrkja. Eitt meginmarkmið málefnasviðsins Örorka og málefni fatlaðs fólks er samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 „að öll þjónusta og stuðningur, þar á meðal bætur og greiðslur, stuðli að því að fólk með skerta starfsgetu geti lifað sjálfstæðu lífi“, eins og þar stendur. Í sömu fjármálaáætlun er gengið út frá því að hækkun lífeyris almannatrygginga verði einungis á bilinu 3,1–4,3% næstu fimm árin. Eðlilegt er að spyrja hvernig fólk með skerta starfsgetu eigi að geta lifað sjálfstæðu og mannsæmandi lífi með slíkri framfærslu. Bilið á milli örorkulífeyrisþega og annarra hópa í samfélaginu heldur þannig áfram að aukast ef lífeyrir almannatrygginga á einungis að hækka árlega um örfáar prósentur, en lágar prósentuhækkanir á lágar upphæðir gefa af sér lágar krónutöluhækkanir.

Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á að „allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega [séu] sveltir og þrátt fyrir að stjórnvöld tali fjálglega um kaupmáttaraukningu öryrkja og að verulegu fjármagni hafi verið bætt við málaflokka fatlaðs fólks og öryrkja þá vantar enn stórlega mikið upp á til að fólk geti lifað með reisn í íslensku samfélagi.“

Mikið starf er enn óunnið, herra forseti, í því brýna samfélagsverkefni að tryggja samfélag án mismununar, samfélag þar sem fatlað og langveikt fólk á rétt til lífs til jafns við aðra. Hér þarf að koma til veruleg aukning fjármagns, og það til lengri tíma.

Svo vikið sé að greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu þá er það þannig að á fjárlögum ársins 2018 var lagt til 500 millj. kr. framlag til að mæta kostnaði við nýjan samning um tannlæknaþjónustu við örorku- og ellilífeyrisþega. Gjaldskrá endurgreiðslu hafði á hinn bóginn ekki hækkað frá árinu 2014. Gert var ráð fyrir að samningurinn myndi taka gildi um mitt árið, en að kostnaður við að uppfylla hann yrði um 1 milljarður kr. á ári. Nýr samningur tók gildi 1. september 2018. Flokkur fólksins benti á í minnihlutaáliti sínu við fjárlagafrumvarp 2018 að verulegir meinbugir væru á framkvæmdinni þar sem miðað væri við viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga sem stæði nær óbreytt á sama tíma og gjaldskrár tannlækna höfðu hækkað um 150–200%. Nú er ljóst að endurgreiðslur ná ekki 75% af gjaldskrá samningsins, heldur aðeins 50%. Það vantar þess vegna hátt í milljarð króna á ári til að fullfjármagna samninginn.

Tekið skal undir áhyggjur Öryrkjabandalags Íslands, sem fram koma í umsögn þess nú, um að ekki séu skýr merki um frekari hækkun til samnings um tannlæknaþjónustu í fjárlagafrumvarpi 2019 miðað við fyrri áætlanir. Framlög til málaflokksins hækka um 500 millj. kr., en hefðu þurft að hækka um 800 millj. kr. á árinu miðað við fulla fjármögnun frá 1. september.

Flokkur fólksins telur að afnema eigi virðisaukaskatt af lyfseðilsskyldum lyfjum og af hjálpartækjum fyrir fatlað fólk og aldraða.

Flokkur fólksins tekur undir þá tillögu Öryrkjabandalagsins að unnið verði áfram að efnislegri innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með markvissum hætti. Í umsögn Öryrkjabandalagsins um þetta atriði segir svo, með leyfi forseta:

„Innleiðing SRFF á ekki einungis að einskorðast við hugmyndafræðina um sjálfstætt líf heldur með þeim hætti að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. Þá er vert að ítreka það að til fatlaðs fólks teljast þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Fjármagn á ekki að standa í vegi fyrir því að samningurinn verði lögfestur.“

Flokkur fólksins tekur heils hugar undir þessi sjónarmið Öryrkjabandalagsins.

Vert er að geta þjónustu við sjúklinga í öndunarvélum. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt áherslu á að kostnaði vegna sjúklinga í öndunarvél á einkaheimilum verði mætt með sérstökum fjárveitingum, en ekki tekinn af almennum fjárheimildum til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Flokkur fólksins tekur undir þessi sjónarmið.

Þá er rétt að geta fjárheimilda til búsetuúrræða fyrir börn með alvarlegar geð- og þroskaraskanir. Þær þurfa að vera í samræmi við áður gefnar forsendur og nauðsynlegt er að veita í samræmi við það 500 millj. kr. til verkefnisins árlega.

Kostnaður við þetta verkefni var metinn sem hluti af kostnaðarmati vegna nýrra skyldna sveitarfélaga samkvæmt 21. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með viðvarandi stuðningsþarfir og var talið kosta um 500 millj. kr. Í fjármálaáætlun 2018–2022 og greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir 500 millj. kr. í þessu skyni.

Í fjárlagafrumvarpi er að því er virðist gert ráð fyrir að fjárheimildir til verkefnisins verði 300 millj. kr. Því þarf að bæta við fjárheimildum um 200 millj. kr. til samræmis við fyrri fyrirheit ríkisins svo að forsendur sveitarfélaga standist til að taka við þessu nýja verkefni.

Vík ég þá að stóru máli sem Flokkur fólksins hefur borið hér fram varðandi skattleysi lægstu tekna.

Til framfærslu þarf einstaklingur þegar síðast var flett upp í reiknivél velferðarráðuneytisins 223.000 kr. á mánuði. Þetta er því viðmiðun sem sett er fram af hálfu stjórnvalda sjálfra. Þetta er án húsnæðis. Svo að því meðtöldu dugar ekki minna en ef til vill 320.000 kr. á mánuði til að lifa fyrir þann einstakling. Þetta er staðreynd sem verður að takast á við með raunhæfum tillögum til úrlausnar. Þingflokkur Flokks fólksins leitaði til sérfræðings í þessum efnum, dr. Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðings um að hann setti fram tillögur um jöfnun á skattbyrði milli tekjuhópa, þannig að þátttaka ríkra og fátækra í rekstri samfélagsins væri líkari því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og að þeim verði hlíft sem eru með tekjur undir framfærslumörkum við að greiða skatta af þeim tekjum. Fyrir liggja rökstuddar tillögur frá hendi okkar góða sérfræðings, Hauks Arnþórssonar, það er skýrslan Jöfnuður í skattkerfinu og er hana að finna á vef Alþingis sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu okkar um þetta efni.

Þá er ég kominn að því að þingmenn Flokks fólksins hafa með stuðningi tveggja þingmanna Miðflokksins lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um hækkun persónufrádráttar, þ.e. að mánaðartekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar skattgreiðslum. Er fjármálaráðherra með tillögunni falið að gera tímasetta áætlun í þessu efni.

Ef litið er á skattbyrði norrænna heimila eins og hún birtist í gögnum OECD kemur í ljós að skattbyrði tekjulægri heimilanna er svipuð hér og þar 22–30%, nema í Danmörku þar sem hún er afar lág, en skattbyrði tekjuhærri heimila hér á landi er 8% lægri en gegnumsneitt á Norðurlöndum. Tölurnar þar eru 38% fyrir tekjuhæstu fjölskyldugerðina, en um 46% að jafnaði annars staðar á Norðurlöndum. Athygli vekur, herra forseti, hve vel er gert hér á landi við þá tekjuhæstu í skattalegu tilliti.

Markmið tillögunnar er að jafna skattbyrði milli tekjulágra og þeirra sem hafa háar tekjur þannig að þeir sem hafa tekjur undir 300.000 kr. verði undanþegnir skatti. Þau skattfrelsismörk samsvara 106.387 kr. persónufrádrætti. Um tvöföldun á núverandi skattleysismörkum er að ræða, en þau hafa ekki fylgt launavísitölu frá 1988. Hefðu þau gert það væri persónufrádrátturinn nánast sá sem er lagt til.

Til að mæta kostnaði að hluta við þessa breytingu er lagt til að persónufrádráttur verði stiglækkandi eftir því sem tekjur eru hærri og falli alveg niður við 970.000 kr. Persónufrádrátturinn falli eftir sveigðu ferli sem mildar áhrifin á tekjuhærri hópa og dregur fram að áherslan er eindregið á að hækka ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Í tillögunni er miðað við að vendipunktur lækkaðra og hækkaðra skatta verði 562.000 kr. Skattar hækka smám saman frá þeirri upphæð með hækkandi tekjum uns skattahækkunin nær tæplega 54.000 kr. á mánuði, þegar tekjur eru komnar í 970.000 kr. Skattahækkun á hærri tekjur yrði sama krónutala. Þannig felur tillagan í sér tilfærslu innan tekjuskattskerfisins.

Tillagan eykur ráðstöfunartekjur, ef hún næði fram að ganga, um 70% skattgreiðenda. Ef miðað er við alla skattgreiðendur á árinu 2017 var helmingur þeirra með tekjur undir 400.000 kr. og hinn helmingurinn með tekjur yfir því marki. Meðallaun sama hóps voru um 540.000 kr., en háar tekjur teygja meðallaunin upp. Einungis 10% skattgreiðenda höfðu 800.000 kr. eða meira í tekjur og 4% yfir 970.000 kr., þar sem tillagan gerir ráð fyrir að skattar hækki mest.

Kostnaður ríkissjóðs vegna þessara breytinga yrði aðeins um 3,5 milljarðar vegna tilfærslu á skattbyrði af tekjuskatti frá hærra launuðum til lægra launaðra sem yrði um 22 milljarðar kr. Hins vegar yrði kostnaðarauki sveitarfélaga nálægt 31,4 milljörðum kr. Breytingin myndi hins vegar auka ráðstöfunartekjur láglaunafólks um allt að 54 milljarða kr. árlega. Kostnaðinn við þessa tillögu má bera saman við, herra forseti, kostnað af tillögu Sjálfstæðisflokksins, flokks fjármálaráðherra, sem borin var fram í aðdraganda alþingiskosninga 2017, um lækkun neðra þreps tekjuskatts um tæplega 2%. Í álitsgerð dr. Hauks Arnþórssonar er kostnaður af þeirri tillögu metinn sem næst 24 milljarðar kr. Það má bera það saman við þessa 31,4 milljarða. Reyndar mætti rökstyðja hærri tölu við kostnað af fyrrgreindri tillögu Sjálfstæðisflokksins.

Þegar kemur að kostnaði má minna á að tekjur opinberra aðila hækka ef að líkum lætur um 45 milljarða frá 2017–2019 vegna hækkaðra tekna skattgreiðenda, áætlað um 32 milljarða kr. hjá ríkinu og um 13 milljarða kr. hjá sveitarfélögum. Eðlilegt væri að hluti þessarar tekjuaukningar yrði notaður til millifærslu til sveitarfélaga þannig að skattbyrðin væri jöfnuð í kostnaði. Ekki er með þessari tillögu gert ráð fyrir að skattþrepum verði breytt, einvörðungu persónufrádrættinum og hvernig hann birtist skattgreiðendum eftir mismunandi tekjuhópum.

Hér er því gerð tillaga um breytingar, umtalsverðar breytingar, á hinu almenna skattkerfi og því sett ný markmið. Réttur er af sá mismunur á skattbyrði tekjuhárra og tekjulágra hér á landi, samanborið við hlutföll milli sambærilegra hópa annars staðar á Norðurlöndum, og jafnframt tekist á við að lyfta ráðstöfunartekjum lægstu launa að framfærslumörkum.

Nái þessi tillaga fram að ganga mun hún þjóna hagsmunum landsins, hagsmunum aldraðra, öryrkja og tekjulágra fjölskyldna. Flutningsmenn telja hana markvert innlegg í baráttu verkalýðshreyfingarinnar um bætt kjör hinna lægst launuðu og að hún gæti átt mikilvægan þátt í að koma á raunhæfum kjarasamningum sem myndu leggja grunn að áframhaldandi uppbyggingu í íslensku efnahagslífi. Áréttað er að kostnaður við tillöguna er ámóta hár, en að sönnu nokkru hærri en í tillögu sem borin var fyrir liðlega ári af hálfu flokks fjármálaráðherra.

Þar með er ég kominn að næsta máli á þeirri dagskrá sem ég hef sett þessari ræðu, en það eru frítekjumörk í lögum um almannatryggingar.

Í fjárlagafrumvarpinu er hvergi að finna áform um að draga úr tekjuskerðingum á greiðslum til örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþega. Frítekjumörk í lögum um almannatryggingar hafi verið óbreytt frá árinu 2009. Þau ættu þó að fylgja árlegum breytingum á sama hátt og lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Ákvæði þess efnis þarf að koma inn í lögin. Öryrkjabandalag Íslands bendir á í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið að frítekjumark á atvinnutekjur hvetji örorkulífeyrisþega, sem hafa einhverja vinnufærni, til atvinnuþátttöku í því skyni að auka virkni sína og að bæta kjör. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009 væri frítekjumarkið komið yfir 200.000 kr. á mánuði í stað 109.600 kr.

Flokkur fólksins tekur undir með Öryrkjabandalaginu að frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyris verði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009.

Herra forseti. Þingflokkur Flokks fólksins lagði í upphafi árs fram frumvarp um að uppbót á lífeyri vegna kostnaðar, sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti, til lífeyrisþega sem ekki getur framfleytt sér án hennar og uppbót til hreyfihamlaðs elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega vegna reksturs bifreiðar verði undanþeginn skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Ólíkt örorkulífeyri miðar slík uppbót ekki að því að bæta launamissi vegna skertrar vinnugetu, heldur að því að koma til móts við sérstök útgjöld lífeyrisþega. Það markmið næst augljóslega ekki ef stór hluti uppbótarinnar er tekinn í skatt.

Þannig fór að borin var fram þingsályktunartillaga og samþykkt á Alþingi 12. júní sl. þess efnis að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram, eigi síðar en 1. nóvember 2018, frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, sem tryggi skattleysi umræddra uppbóta á lífeyri. Tillagan var reist á því sjónarmiði að óeðlilegt væri að einstaklingar væru skattlagðir vegna greiðsla sem ætlað er að standa undir kostnaði þeirra vegna örorku, hreyfihömlunar eða sjúkdóma. Tillagan var flutt af þingmönnum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, þar á meðal öllum þingmönnum Flokks fólksins sem beittu sér sérstaklega í málinu. Tillagan samþykkt með 56 samhljóða atkvæðum. Þingviljinn í þessu máli gæti ekki verið skýrari.

Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram umrætt frumvarp og mælt fyrir því. Í greinargerð með því frumvarpi kemur fram að lagt sé til að tveir flokkar uppbóta á lífeyri, sem tengdir eru félagslegri aðstoð lífeyrisþega, verði skattfrjálsir eins og lagt var upp með. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu ráðstöfunartekjur lífeyrisþega sem fengið hafa greiddar uppbætur í þessum flokkum aukast sem nemur greiddum tekjuskatti og útsvari og tekjur ríkis og sveitarfélaga lækka að sama skapi.

Þingflokkur Flokks fólksins fagnar því að þessi löngu tímabæra réttarbót, og réttlætismál, sé nú í þann veg að nást með þessu frumvarpi sem ætla verður að fái greiða leið í gegnum Alþingi.

Ég vil geta hérna örstutt, herra forseti, um svonefndan húsnæðislið. Fram hefur komið í svari við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur að húsnæðisliðurinn hafi reynst heimilum landsins eins og hvert annað gráðugt skrímsli á meðan almennar verðhækkanir leiddu til þess að 15 milljarðar lögðust ofan á lán til íbúðar- og húsnæðiskaupa, þá lögðust 118 milljarðar ofan á þessi sömu lán vegna húsnæðisliðarins. Fullyrða má að samsvarandi eignatilfærsla frá lántakendum til fjármálastofnana yrði hvergi þoluð eða liðin í nágrannalöndum Íslendinga. Og leyfi mér að bæta við, herra forseti, að ósvarað er fyrirliggjandi skriflegri fyrirspurn frá þeim sem hér stendur til fjármálaráðherra, um áhrif húsnæðisliðarins á fjármagnskostnað ríkissjóðs og þar með skattgreiðenda á umliðnum árum. Hvað hefur þetta fyrirbæri, sem sérfræðingahópur um framtíð íslenskrar peningastefnu telur að taka eigi út úr vísitölunni, kostað ríkissjóð og skattgreiðendur? Og hvaða þörf og góð verkefni hafa ekki náð fram að ganga vegna þess að húsnæðisliðurinn hefur sogað til sín allt þetta fé út úr ríkissjóði rétt eins og hann hefur sogað til sín fé heimilanna?

Vandinn á húsnæðismarkaði er tekinn fyrir í umsögn Alþýðusambands Íslands þar sem fram kemur að á leigumarkaði búi nú um 50.000 einstaklingar. Af þeim eru tekjulágir og ungt fólk í meiri hluta. Leigjendur verja að jafnaði, að mati Alþýðusambandsins, 18,7% af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað á meðan eigendur verji 6,1%.

Leigjendur eru því síður í aðstöðu til að kaupa fasteign og sitja fastir í fátæktargildrum á óstöðugum leigumarkaði. Búsetuform er í auknum mæli farið að hafa ráðandi áhrif á lífskjör þar sem eigendur húsnæðis hafa notið góðs af efnahagslegri uppsveiflu á meðan staða leigjenda hefur þyngst.

Við þessar aðstæður sætir furðu að vaxtabætur skuli samkvæmt fjárlagafrumvarpinu halda áfram að lækka, um 600 millj. kr. frá fjárlögum síðasta árs, og verða alls 3,4 milljarðar kr. árið 2019. Þetta er um 15% lækkun milli ára.

Í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið bendir Alþýðusamband Íslands á að viðmiðunarfjárhæðir og eignamörk hafi rýrnað verulega í samanburði við laun og fasteignaverð á undanförnum árum sem hefur leitt til þess að heimilum sem fá stuðning í gegnum vaxtabótakerfið hefur fækkað verulega undanfarin ár. Þar segir, með leyfi forseta:

„Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í sínu húsnæði (20%) fær í dag lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið. Hröð eignaskerðing vaxtabóta hefur lent þungt á kaupendum húsnæðis á undanförnum árum samhliða hröðum hækkunum húsnæðisverðs. Slíkt fyrirkomulag er óheppilegt þar sem það dregur verulega úr fyrirsjáanleika við húsnæðiskaup og lendir þyngst á þeim sem koma nýir inn á húsnæðismarkað.“

Alþýðusambandið bendir einnig á að gert sé ráð fyrir 64 millj. kr. lækkun á framlögum til húsnæðisbóta til leigjenda. Því standi vart til að hækka bótafjárhæðir til samræmis við hækkandi verðlag á leigu. Þar með verði dregið úr stuðningi við leigjendur sem er sá hópur sem stendur hvað verst að vígi á húsnæðismarkaði.

Flokkur fólksins lýsir þungum áhyggjum af stöðu mála á húsnæðismarkaði í landinu og hvetur til að komið verði betur til móts við leigjendur og kaupendur en gert er um þessar mundir.

Í fjárlagafrumvarpinu koma fram áform um að auka stuðning til barnafjölskyldna um 1,6 milljarða kr. í formi barnabóta. Barnabætur verða því 12,1 milljarður kr. á næsta ári. Bótafjárhæðir hækki um 5% frá fyrra ári og tekjuskerðingarmörk hækka um 24% frá fyrra ári en tekið er upp nýtt þrep hærri skerðinga á tekjum yfir 11 milljónum á ári hjá hjónum og 5,5 milljónum hjá einstæðum foreldrum.

Samkvæmt gildandi ákvæðum byrja barnabætur að skerðast undir lægstu launum en með breytingunum hefst tekjuskerðing barnabóta við 300.000 kr. mánaðartekjur foreldris í stað 241.000 kr. Nýtt þrep skerðinga verður til þess að skerðingar aukast fari tekjur foreldris umfram 458.000 kr. á mánuði. Í því samhengi má benda á að neðri fjórðungsmörk heildarlauna voru 496.000 kr. á mánuði á árinu 2017.

Hefðu tekjuskerðingarreglur verið óbreyttar hefðu bætur verið fullskertar við mánaðartekjur sem nema um 667.000 kr. á hvort foreldri og við um 1,4 millj. kr. mánaðartekjur hjá einstæðum foreldrum.

Barnabætur hafa á liðnum árum rýrnað mikið að raunvirði. Þetta kemur líka fram í hinni vönduðu og athyglisverðu skýrslu Alþýðusambands Íslands frá ágúst 2017. Eftir hækkunina nú eru útgjöld til barnabóta svipuð að raunvirði og á árinu 2013 en um 8% lægri en árið 2010. Jafnframt hefur viðtakendum barnabóta fækkað um 13.000 frá árinu 2013 og yfirlýst stefna stjórnvalda hefur verið að þrengja þann hóp enn frekar.

Flokkur fólksins tekur undir þá gagnrýni sem kemur fram í umsögn Alþýðusambands Íslands við fjárlagafrumvarpið. Stuðningur til barnafjölskyldna ætti þvert á þróun að verða almennari og í samræmi við barnabótakerfin annars staðar á Norðurlöndum. Aukin framlög til barnabóta og hækkun grunnbóta eru vissulega jákvætt skref en stuðningur til barnafjölskyldna þarf að ná til stærri hóps en nú er og stefnir í að verði. Auk þess vil ég bæta við, herra forseti, að fæðingar hér á landi eru allt of fáar og fæðingartíðnin er ekki nóg til að standa undir eðlilegri fjölgun eða undir því að þjóðin svo mikið sem standi í stað í fjölda, þannig að það eru fullkomnar ástæður og þar á meðal veigamiklar lýðfræðilegar ástæður til þess að búa betur að barnafjölskyldum. Á þetta legg ég þunga áherslu.

Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mikilli vá sem er fíkniefnavandinn. Það sem af er þessu ári hafa rúmlega 40 manns á aldursbilinu 18–40 ára látist af völdum lyfjaeitrunar og fíknisjúkdóma. Talað er um faraldur í þessu sambandi. Á sama tíma bíða rúmlega 600 manns eftir læknisþjónustu og að komast í meðferð sem einkum er sinnt af SÁÁ. Stærsti hópur þeirra sem bíða er fólk undir 40 ára. Fjársvelti veldur því að ekki tekst að vinna bug á þessum langa biðlista. Ástandið er grafalvarlegt og kallar á tafarlaus viðbrögð.

Enginn samningur hefur verið í gildi milli SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands síðan 2014. Kallað er eftir auknu fjármagni til að SÁÁ geti sinnt vaxandi hlutverki sínu sem bráðamóttaka mjög veikra sjúklinga. Samtökin telja að þau þurfi 165–200 millj. kr. til viðbótar í þjónustusamning um sjúkrahúsið Vog til að eyða biðlistanum.

Átak er nauðsynlegt í meðferð gegn ópíumfíkn. Í umsögn SÁÁ um fjárlagafrumvarpið kemur fram að gildandi samningur um viðhaldsmeðferð gegn þessari fíkn sé takmarkaður við 90 manns. Þennan samning þarf að endurnýja og auka hámarksfjöldann í minnst 130–140 einstaklinga. Miðað við þetta þyrfti að bæta um 22 millj. kr. við samninginn.

Enginn þjónustusamningur er til fyrir meðferð ólögráða einstaklinga. Á bilinu 50–60 slíkir koma árlega í afeitrun og meðferð á Vogi. Hér verður að gera bragarbót og koma upp deild sem uppfyllir gæða- og öryggiskröfur embættis landlæknis. Kostnaður við það yrði minnst 45 millj. kr.

Þjónustusamningur um eftirmeðferð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi er frá 2008 og löngu úreltur. Sá samningur gerir ráð fyrir að á Vík sé dagdeild en í rauninni er hér um að ræða 28 daga innlögn fyrir hvern einstakling. Það skortir 66 millj. kr. svo að daggjöld vegna meðferðar á Vík séu í samræmi við raunveruleikann. Gera þarf þjónustusamning sem tryggir göngudeildarþjónustu í Reykjavík og á Akureyri. Það myndi kosta 100 millj. kr.

Flokkur fólksins telur afar brýnt að verða við ákalli SÁÁ um úrbætur af hálfu ríkisins varðandi rekstur og fjárhag meðferðarúrræða samtakanna. Mannslíf og velferð þúsunda manna eru í húfi. Í framhaldinu er brýnt að fjárhag SÁÁ verði komið í viðunandi horf með langtímasamningum sem fallnir væru til að skapa örugga umgjörð um starfsemina.

Þingflokkur Flokks fólksins gerir þá breytingartillögu að framlög til SÁÁ verði aukin um 128 milljónir umfram það sem meiri hlutinn leggur til. Heildarframlög til SÁÁ verði þannig, eins og metið er að þurfi, 278 millj. kr.

Til að koma til móts við þennan aukna kostnað ríkissjóðs má fresta fyrirhugaðri skiptingu velferðarráðuneytis í tvö ráðuneyti enda sýnist mega undirbúa þá fyrirhuguðu breytingu mun betur en gert hefur verið. Fram hefur komið að skipting ráðuneytisins muni kosta 212 millj. kr. hið minnsta, þannig að þarna er til fé fyrir þeirri breytingu sem þingflokkur Flokks fólksins leggur til og það án þess að til komi neinar skattahækkanir.

Herra forseti. Lögreglan í landinu hefur um langt árabil mátt þola fjársvelti. Virðist sem öllum viðmiðum um viðunandi mannafla í lögreglu hafi verið varpað fyrir róða allt frá aldamótum. Á sama tíma og verkefnum lögreglu hefur fjölgað, þau orðið flóknari og landsmönnum og ferðamönnum fjölgað, hefur lögreglumönnum um langt árabil ekki fjölgað heldur fækkað. Áberandi er hve hlutur löggæslunnar úti á landi er fyrir borð borinn og er skemmst að minnast á mjög aðkallandi þörf fyrir lögreglumenn hjá lögreglunni á Suðurlandi vegna tíðra slysa og mikils fjölda ferðamanna.

Óhætt er að fullyrða að fjárveitingar til löggæslu séu alls ekki nægilegar til að tryggja lögreglunni þær starfsaðstæður sem nauðsynlegar eru í þjóðfélagi samtímans. Brýn og aðkallandi þörf er á fjölgun lögreglumanna eins og fjölmargar skýrslur bera með sér, samanber t.d. skýrslu innanríkisráðuneytisins árið 2012 um stöðu lögreglunnar þar sem helsti vandi lögreglunnar var talinn fækkun lögreglumanna.

Flokkur fólksins leggur áherslu á að sýslumannsembætti landsins verði styrkt og þeim gert kleift að sinna betur hlutverki sínu. Eftir þær miklu breytingar sem gerðar voru á fjölda sýslumannsembætta 2015 hafa embættin barist í bökkum vegna ónógra fjárveitinga og fyrirheit um flutning verkefna til þeirra hafa ekki gengið eftir. Nauðsynlegt er að mati flokksins að styrkja embættin og treysta starfsgrundvöll þeirra svo að þau geti staðið undir nafni sem útverðir framkvæmdarvalds og þjónustu ríkisins í héraði. Því sé nauðsynlegt bæði að auka fjárveitingar til þeirra sem og að standa við gefin fyrirheit um flutning verkefna frá ráðuneytum og stofnunum út á land og til sýslumannsembættanna.

Herra forseti. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin boði stórsókn í samgöngumálum er ljóst að mörg aðkallandi brýn samgönguverkefni fá enn að bíða og má þar nefna tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut, Ölfusárbrú og Fjarðarheiðargöng. Bættar samgöngur skila sér með margvíslegu móti til íbúa landsins og styrkja byggðir og atvinnuvegina. Framkvæmdir við aðskilnað akstursstefna út frá höfuðborginni suður til Keflavíkur, í Borgarnes og austur fyrir Selfoss taka allt of langan tíma. Flokkur fólksins leggur áherslu á að flýta fyrir brýnum vegaframkvæmdum og telur óviðunandi að ríkisstjórnarflokkarnir skili auðu í þessum málum þegar allt vegakerfið liggur undir miklu umferðarálagi og nauðsyn er á úrbótum.

Í ljósi upplýsinga frá fulltrúum Vegagerðarinnar á nýlegum fundi fjárlaganefndar telur Flokkur fólksins ástæðu til að kannaðir verði kostir þess að minnka slit á vegum af völdum hópferða-, flutninga- og vörubifreiða með aðgerðum eins og takmörkunum á öxulþunga, hertari reglum um fjölda ása og dekkjafjölda á ás ásamt reglum um breidd og lægri loftþrýsting í hjólbörðum þessara bifreiða. Í ljósi upplýsinga Vegagerðarinnar á umræddum fundi fjárlaganefndar má gera því skóna að hér mætti spara mjög umtalsvert fé í viðhaldi vegakerfis landsins.

Í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið benda Samtök ferðaþjónustunnar réttilega á að löngu sé orðið brýnt að huga að auknum fjárframlögum til viðhalds og uppbyggingar á samgöngukerfi landsins. Uppsöfnuð viðhaldsþörf eftir margra ára vanrækslu er nú talin nema 65 milljörðum kr. Við þetta bætast svo nýframkvæmdir sem víða eru orðnar mjög brýnar eins og áður er getið. Ekki þarf að deila um mikilvægi góðra samgangna fyrir ferðaþjónustuna sem síðan styður við byggðaþróun í landinu, treystir byggð í kringum landið. Flokkur fólksins bendir á og tekur undir með Samtökum ferðaþjónustunnar um að nú þegar sýnt er að hægja muni á hagvexti, a.m.k. að einhverju marki, sé kjörið tækifæri til að huga að auknu viðhaldi og nýframkvæmdum á sviði samgangna.

Hér skal einnig bent á flugvelli innan lands. Isavia metur það svo að nú vanti um 700 millj. kr. til að standa straum af lágmarksviðhaldi innanlandsflugvalla. Það hefur verið vanrækt allt of lengi. Uppsöfnuð þörf viðhalds og framkvæmda innanlandsflugvalla er yfir 50 milljarðar kr. Frá árinu 2010 hafa fjárveitingar til uppbyggingar og reksturs innanlandsflugvalla lækkað um helming, úr tæpum 6 milljörðum kr. í tæpa 3 milljarða kr. á ári. Þetta er mikil þversögn á árabili þar sem fjöldi erlendra ferðamanna til landsins hefur vaxið úr 490.000 árið 2010 í 2,2 millj. kr. á síðasta ári. Innanlandsflugvellir skipta miklu máli ef takast á að dreifa ferðamönnum betur um landið og þannig styrkja frekar aðra innviði og búsetu.

Í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið vekja Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu athygli á því að nú liggur fyrir yfirgripsmikil greining og tillögur sameiginlegs samstarfshóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um nauðsynlegar aðgerðir og úrbætur í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins til ársins 2030. Þessar tillögur voru kynntar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í byrjun þessa árs. Nú stendur yfir vinna verkefnishóps framangreindra aðila við mótun tillagna um forgangsröðun þeirra verkefna sem greiningin og tillögurnar leiddu af sér.

Flokkur fólksins tekur undir kröfur Sambands íslenskra sveitarfélaga um að fullnægjandi skýringar og stefna fáist varðandi áform ríkisstjórnarmeirihlutans um gistináttagjaldið. Á landsþingi sambandsins í september sl. var það skýr afstaða þingfulltrúa að ákvörðun um að færa gistináttagjald til sveitarfélaga yrði tekin fyrir lok þessa árs.

Sambandið hefur ítrekað sett fram sanngjarnar kröfur um að sveitarfélögin fái auknar tekjur af ferðaþjónustu. Í því sambandi hefur einkum verið horft til þeirra skatttekna sem fást með álagningu gistináttagjalds. Í stjórnarsáttmála kemur fram að tekjur af gistináttagjaldi skuli færast yfir til sveitarfélaga. Það verði gert í tengslum við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga en þessu er þó ekki lýst nánar í sáttmálanum. Í síðasta fjárlagafrumvarpi fyrir yfirstandandi ár var strax dregið úr þessum fyrirheitum. Þá var aðeins talað um að flutningur gistináttagjalds yrði skoðaður.

Að mati Flokks fólksins er óviðunandi að sveitarfélögin fái ekki í sinn hlut neitt af gistináttagjaldinu sem var þrefaldað frá 1. september 2017. Sveitarfélög bera verulegan kostnað af uppbyggingu og viðhaldi innviða sem nýtast í ferðaþjónustu hér á landi. Einnig taka þau iðulega þátt í ýmsum öðrum kostnaði vegna greinarinnar, svo sem í tengslum við markaðssetningu. Það er því sanngirnismál að þau fái að njóta tekjustofna sem hið opinbera stofnar til í beinum tengslum við ferðaþjónustuna.

Herra forseti. Ég er nú að komast að lokum máls míns, en vil geta um eitt atriði í lokin, sem lýtur að ríkisreikningi og endurskoðun á honum. Ríkisreikningur 2017 var gefinn út um miðjan október. Í áritun ríkisendurskoðanda kemur fram að hann „[láti] ekki í ljós álit á ríkisreikningnum“. Ástæðan sem gefin er upp er sú, með leyfi forseta, að „samkvæmt reikningsskilastöðlum er óheimilt að vísa til þess að ársreikningar séu gerðir í samræmi við IPSAS“ — hér er átt við reikningsskilastaðalinn sem svo er kallaður — „fyrr en lokið er fullri innleiðingu allra staðla sem tekið hafa gildi. […]

Þar sem fullri innleiðingu á nýjum reikningsskilareglum er ekki lokið og lýkur ekki fyrr en í árslok 2019 lætur ríkisendurskoðandi ekki í ljós álit á ríkisreikningnum.“

Þá er í árituninni vísað til þess að fjármála- og efnahagsráðherra og fjársýslustjóri séu ábyrgir fyrir gerð og framsetningu ríkisreiknings í samræmi við lög og reglur sem gilda um reikningsskil ríkisins og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til glöggvunar á afkomu og stöðu ríkissjóðs. Þá nái ábyrgð fyrrgreindra aðila einnig til þess að viðeigandi innra eftirliti sé viðhaldið við gerð og framsetningu ríkisreiknings þannig að hann sé í meginatriðum án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka. 4. minni hluti telur að sú staða sem hér er komin upp sé óviðunandi. Svo virðist sem endurskoðaður ríkisreikningur berist Alþingi í fyrsta lagi árið 2020 vegna ársins 2019 ef tekst að ljúka fyrrgreindri innleiðingu samkvæmt áætlun. Að mati 4. minni hluta er mikilvægt að leysa úr því vandamáli sem hér blasir við þar sem óviðunandi er að ríkisendurskoðandi treysti sér ekki til að árita reikninginn án fyrirvara þar sem ríkisreikningur felur í sér upplýsingar um lögþvingaða skattheimtu og ráðstöfun hennar. Þingheimur og allur almenningur á rétt á að framsetning á upplýsingum þessum sé hafin yfir allan vafa.