149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðuna og um leið samstarfið í hv. fjárlaganefnd í umfjöllun um frumvarpið sem við ræðum, fjárlagafrumvarpið.

Hv. þingmaður talaði um hikst í hagkerfi sem kom fram í hagspá Hagstofunnar sem við fengum kynningu á í hv. fjárlaganefnd og hrindir í raun þeim breytingum sem við erum m.a. að fjalla um í 2. umr., þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin fór í og þær tillögur að breytingum ásamt tillögum meiri hluta nefndarinnar til að halda sig við þetta 1%. Hæstv. ráðherra fjármála og efnahagsmála, Bjarni Benediktsson, fór reyndar mjög vel yfir verklagið og þau ótrúlega litlu frávik á milli fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps, gangi það eftir. Það er auðvitað merki um öguð vinnubrögð.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í tengsl laga um opinber fjármál af því að hv. þingmaður ræddi um LOF eins og hann kallaði það, og við höfum kallað það, og vísaði til 6. og 7. gr. um fjármálaskilyrðin og 4. og 5. gr. um stefnu og ríkisfjármál. Vill hv. þingmaður meina að sveigjanleikinn til viðbragða í hagstjórnarlegu tilliti sé of lítill eins og afkomuskilyrðin eru og svo þetta sem er greypt í stein, þetta 1%, sem þó verður til þess að umræðan fer þangað og ráðstafanir fara þangað en sveigjanleikinn til þess að bregðast við því hvort við erum að fara upp eða niður, dvínandi hagvöxtur jafnvel meiri, verður minni en áður var?