149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, við höfum talað mikið fyrir því að styrkja velferðarkerfið og það erum við að gera. Við erum að setja mikla fjármuni í velferðarkerfið, bæði í þeim fjárlögum sem við störfum eftir í dag og á næsta ári. Því getur hv. þingmaður ekki neitað. Hann talar um að það sé verið að skera niður í hjúkrunarheimilum en það er ekki verið að skera niður. Ég rakti það áðan. Framkvæmdir geta ekki hafist á réttum tíma og ég fór yfir sumt sem þar er undir og hvers vegna það er. Ég fékk upplýsingar úr velferðarráðuneytinu í dag. Ég sit í Framkvæmdasjóði aldraðra þannig að ég þekki nokkuð til málsins. Þegar við tölum um það er þetta ekki niðurskurður, þetta er frestun á framkvæmdum. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga.

Hvað varðar veiðigjöldin þekkir hv. þingmaður þá sögu. Ég held að enginn flokkur hafi sömu stefnu þegar kemur að veiðigjöldum eða öðru slíku hér inni, nema kannski helst Viðreisn og Samfylkingin sem vilja bjóða heimildir upp. Það er snúið mál að ná saman um breytingar á veiðigjöldunum eins og við þekkjum í atvinnuveganefnd.