149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ekki niðurskurður. Ég ætla bara enn og aftur að segja það. Eins og ég fór hér yfir áðan hefur undirbúningurinn tekið lengri tíma. Það tekur alltaf tíma, eins og hv. þingmaður hlýtur að átta sig á. Þegar maður er að fara að byggja þarf það einhvern undirbúning, það gerist ekki bara sisona. Eins og ég taldi upp eru framkvæmdir miklar og rýmin sem koma fram á næsta ári eru ansi mörg, sem betur fer. Eins og hv. þingmaður segir er ekki vanþörf á. Sjúkrahótelið okkar fer líka að taka við og mun vonandi minnka álagið á Landspítalann að auki.

Ég vil halda því til haga að hér er ekki um niðurskurð að ræða heldur eru framkvæmdirnar bara að ýtast fram í tímann. Sumt af því tekur til starfa seinna á árinu en gert var ráð fyrir, jafnvel ekki fyrr en í nóvember.

Svo vildi ég bara segja eitt um veiðigjöldin. Hv. þingmaður talar um að gefa sér góðan tíma en þau þurfa að liggja fyrir fyrir áramót. Það er alveg ljóst. (Gripið fram í.)