149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vitna í nefndarálit mitt en þar kemur einmitt fram með ársskýrslurnar að þær eru vitagagnslausar ef við erum ekki með kostnaðarmetnar aðgerðir því að þá höfum við ekki hugmynd um hvort markmiðinu var í rauninni náð með þeim fjármunum sem við vorum að nota.

Hv. þingmaður talaði um skattheimtuna og honum var mjög umhugað um skattgreiðendur. Ég segi einmitt í nefndaráliti mínu að krafa þingsins ætti að vera skýr og kostnaðarmetin stefna sem hægt væri að fylgjast með í framkvæmd til þess að hægt væri að réttlæta að skattheimta væri réttlát og hagkvæm öllum. Þetta vantar algjörlega í núverandi fjárlög, fjármálaáætlun og víðar.

Einnig minntist hv. þingmaður á hvernig það væri ódýrt fyrir minni hlutann að leggja fram tillögu, sem ég nefndi í nefndaráliti mínu, en ég fullvissa hann um að við Píratar erum alveg tilbúnir að standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir breytingartillögum okkar.