149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:23]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að hv. þm. Haraldur Benediktsson líti ekki á þetta sem tilraun til útúrsnúnings af minni hálfu en ég hjó eftir orðalagi í ræðu hans áðan sem mér fannst athyglisvert og mig langar til að eiga orðastað við hann um þá grundvallarhugsun sem felst í því: Engin fjárfesting er betri en að lækka skuldir ríkissjóðs.

Þetta hljómar mjög vel en ég er samt ekki viss um að ég sé alveg sammála hugmyndinni. Ég held að það megi alveg ímynda sér betri fjárfestingu en að lækka skuldir ríkissjóðs. Að mínu mati er ekkert endilega dyggð í sjálfu sér að lækka skuldir ríkissjóðs. Ég held t.d. að betri fjárfesting sé í því að hjálpa ungu fólki að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Ég held að það sé betri fjárfesting að efla spítala, reisa hjúkrunarheimili og byggja tvíbreiðar brýr. Ég held jafnvel að það sé betri fjárfesting að reisa klósett fyrir túrista og bæta almenningssamgöngur. Það eru ótal hlutir og ég bið hv. þm. Harald Benediktsson að hugleiða örlítið með mér hvort ekki megi hugsa sér betri fjárfestingu en að lækka skuldir ríkissjóðs, þ.e. að fjárfesta í góðum lífskjörum og lífshamingju fólks.