149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ferðamennirnir okkar, makríllinn þar á meðal sem ferðaðist inn í íslenska landhelgi, já, það er ýmislegt sem spilaði með okkur en ég held að okkur hafi vegnað vel vegna þess að við nýttum tækifærin vel og rétt. Með því er ég ekki að segja að Sjálfstæðisflokkurinn sem ég starfa fyrir eða ríkisstjórnin á hverjum tíma hafi verið svo ofboðslega dugleg og eigi þetta allt skilið. Ég er í rauninni að tala um íslensku þjóðina.

Ég er ekkert síður að tala um þá einstaklinga sem fóru fram með hugviti og frumkvöðlastarfsemi, opnuðu ferðaþjónustufyrirtæki, fundu leiðir til að selja ösku í krukku, ferðir til að segja álfasögur eða hvað það er. Það er í rauninni þjóðin sem hefur unnið þetta ótrúlega afrek. Þarna lýsir sér dugnaður íslensku þjóðarinnar. Án þess að vera of þjóðrækin er samt mikilvægt að klappa þjóðinni á bakið fyrir það. Við höfum staðið okkur vel og ég er fullviss um það án þess að ég ætli að eigna einhverjum það sérstaklega. Þetta datt ekki af himnum ofan. Jú, jú, makríllinn kom hingað, en sjáum líka hvað sjávarútvegsfyrirtækin hafa staðið sig vel á síðustu árum við að finna leiðir, fullnýta afurðir sínar. Nánast ekkert fer til spillis. Það eru alls konar skemmtileg nýsköpunarfyrirtæki sem hafa sprottið í kringum það, hvort sem er að nota roð eða beingarð, búa til fæðubótarefni eða enn annað.

Það er þetta sem ég á við. Það er mikilvægt að stjórnvöld búi til þann ramma sem hvetur fólk áfram nákvæmlega til þessara hluta. Lítil og meðalstór fyrirtæki skipta okkur mestu máli í atvinnulífinu og ég tel að við eigum að horfa sérstaklega á nýsköpun, lítil og meðalstór fyrirtæki og búa til umgjörðina þannig að fólk fái að blómstra og koma fram með þessar hugmyndir.

Ég ætla að fá að fjalla um borgarlínuna og samgöngur í næsta andsvari.