149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann snertir á ýmsum mjög nauðsynlegum málum og að huga þurfi að þeim. Hér er minnst á að hv. þingmanni líði eins og það sé sérstakt markmið að auka ríkisútgjöldin og að við þurfum að gera kröfur um hvernig almannafé er notað og að það reyni á lög um opinber fjármál í framtíðinni. En ég vil hins vegar segja að núna reynir á lög um opinber fjármál. Í þessum fjárlögum er ekki verið að uppfylla lög um opinber fjármál með tilliti til einmitt þess sem hv. þingmaður er að kalla eftir, markmiðunum, árangrinum, mælanlegu stefnunni og aðgerðunum.

Hvernig líður hv. þingmanni með að sjá þetta fjárlagafrumvarp miðað við þær kröfur sem hann virðist gera núna fyrir framtíðina? Ég sé ekki betur en að við viljum nákvæmlega það sama en ég er að gagnrýna fjárlögin núna fyrir að vera einmitt algerlega tóm af þeim markmiðum sem hv. þingmaður kallar eftir. Upphæðirnar sem lagðar eru til til aukinna fjárheimilda eru ekki einu sinni fyllilega útskýrðar. Beðið er um 4 milljarða en ekki sagt hvernig síðan á að nota þá.

Þegar við fáum útskýringar á því hvernig á að nýta útgjaldasvigrúmið stemmir það frá einu ráðuneyti, allt komið, alveg niður í 0. Frábært. Svo kemur næsta ráðuneyti og bætir við, þá er það allt í einu komið í mínus. Hvað erum við að fara að samþykkja hérna?

Um þetta eru mörg dæmi, þar sem fjárheimildirnar eru annaðhvort í plús eða mínus. Píratar leggja einmitt til að öll þau útgjöld, þ.e. úttektarheimildir sem sóst er eftir og eru ekki útskýrðar, um 8 milljarðar, séu bara felld niður. Hvað finnst hv. þingmanni um það?