149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allir flokkar lofuðu fyrir síðustu kosningar og þarsíðustu að byrja einmitt að byggja upp. Það er alla vega vel.

Aðeins til að verja meiri hluta, sem hv. þingmaður sagði að væri að létta á bensíngjöfinni, vil ég segja að þær skipanir koma náttúrlega frá ríkisstjórninni. Fjárlaganefnd bætti við öðrum pakka sem var ekki að létta á bensíngjöfinni. Síðan koma ásakanir um skerðingar. Já, á loforðunum, þar á er munur. Lofað var 4 milljörðum, verið er að skerða það loforð til að hafa þetta svona nákvæmt.

Það er nefnilega fleira sem reynir á í fyrsta skipti í lögum um opinber fjármál, ekki bara afkomumarkmiðin eins og hv. þingmaður bendir réttilega á. Það er, að ég tel, dálítið krítískt hvílíkur tímapunktur er núna í lögum um opinber fjármál, hvernig við tökum á fjárlögum núna og næstu fjármálaáætlun. Þetta er í fyrsta sinn sem við erum að ná fyrsta árinu frá því að lög um opinber fjármál voru sett. Það er fáránlegt.

Annað sem hv. þingmaður sagði var að auka gæði þjónustu fyrir minni pening. Það þýðir ekkert annað en nýsköpun. Það er ekki mikið um nýsköpunarstyrki í fjárlögunum, ég verð að segja eins og er. Ég held að enginn geti í rauninni mótmælt því neitt sérstaklega.

Smá svo að lokum um kaupmáttaraukninguna, hv. þingmaður talaði um mikla kaupmáttaraukningu, 40%. Ég spyr: Til hverra rennur þessi kaupmáttaraukning? Rennur hún til ungs fólks? Rennur hún til leigjenda? Ég held nefnilega að kaupmáttaraukningunni á undanförnum árum hafi verið tiltölulega misskipt og að sá aukni kaupmáttur sem ýmsir hafa kannski fengið hafi horfið í hækkandi húsnæðisverð eða leiguverð eða annað sem við ættum að gera betur í.