149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:20]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til andsvara. Í frumvarpinu kemur fram að hækka eigi vaxtabætur um 13% milli ára, það verði um 3,4 milljarðar sem verði settir í þennan málaflokk. Engu að síður er um sögulega lága upphæð að ræða. Hin mikla hækkun á húsnæðisverði undanfarin ár hefur étið upp vaxtabæturnar. Einn helsti skerðingarþáttur vaxtabóta er hækkun á verðmæti eignar. Aðrir þættir hafa þarna einnig áhrif, eins og hækkun launa og fjármagnstekjur.

Frá árinu 2010 hafa vaxtabætur lækkað um rúma 8 milljarða kr. Þeim fjölskyldum sem eiga rétt á þeim hefur fækkað um rúm 30.000. Það er búið að taka vaxtabæturnar af fjölda fólks. Því er ekki að finna raunverulegt peningasjóðsstreymi í boðaðri hækkun bótanna, bótagreiðslur til húsnæðiseigenda hafa hríðlækkað á sama tíma og skattar á húseigendur hafa hækkað umtalsvert.

Það sem skiptir höfuðmáli í því eru skerðingarmörkin, þ.e. hvenær byrja eigi vaxtabæturnar og hvenær þær eigi að skerðast. Skerðingar og niðurfellingarmörk vaxtabóta hafa engan veginn fylgt verðlagi. Auk þess hafa hámarksgreiðslur vaxtabóta nánast haldist þær sömu síðan 2011.

Ekki verður séð að það standi í frumvarpinu svo neinu nemi með reikningsreglur vaxtabóta, að þær haldist óbreyttar áfram. Viðmiðunarstærðir vaxtagjalda og hámarkskvóta hækka um 5% en nettóeigna um 10%.

Ég spyr: Er þetta leyfilegt, hæstv. ráðherra?