149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni prýðisræðu. Flest af því sem ég ætlaði nú að koma inn á í andsvari kom fram í ágætisandsvörum við hæstv. ráðherra, Ásmund Einar Daðason. En mér fannst hv. þingmaður draga mjög vel fram hvernig við getum brugðist við vanda og nýgengi örorku. Þá erum við bara að horfa á tölurnar í kerfinu og þróun útgjalda út frá fjárlögum. Síðan er sú ánægjulega staðreynd að það hefur náðst markverður árangur þegar kemur að stoðkerfisvanda þegar fleirum er gert kleift að leita í sjúkraþjálfun.

Þegar litið er til öryrkja, skráð í byrjun árs 2018, eru þeir sem eru 75% metnir rúmlega 21.000. Hátt í 70% eða rúmlega 60% af þessu hópi er vegna stoðkerfisvandamála og geðrænna vandamála. Það tengist þeirri umræðu sem var hér um daginn að við hefðum hreinlega bara gleymt drengjunum okkar, vegna þess að nýgengi í örorkunni er mikið til þar, ungir menn með einhvers konar vandamál á þessu sviði. Ef við getum náð þessum árangri í gegnum sjúkraþjálfun, að hluta til vegna þess að við og hæstv. ríkisstjórn höfum verið að lækka greiðsluþátttökuna, hvernig getum við náð viðlíka árangri gagnvart hinum þættinum?