149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og kannski sérstaklega kennslustund í muninum á hægri og vinstri í stjórnmálum, en hann fór mikinn í umræðu um muninn á hægri og vinstri. Þá langar mig kannski til að nefna það við hv. þingmann að ef hann telur að þessi fjárlög séu hægri sinnuð þá fer hann villur vegar. Ég er nokkuð viss um að ef ég og kollegar mínir í Sjálfstæðisflokknum fengjum ein að ráða þessum fjárlögum þá myndu þau líta eitthvað öðruvísi út en þau gera í dag. Ég held að það sé líka mikilvægt að halda því til haga.

Í ljósi þess að þingmaðurinn ýjaði að því að hægri stjórnmálin væru kannski ekki jafn góð fyrir fólkið og vinstri stjórnmálin, þá langar mig að spyrja hv. þingmann út í þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum, þar sem alla vega Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórn, en ekki endilega hægri stjórn ef miðað er við þá skilgreiningu. Til að mynda málefni öryrkja og málefni fatlaðs fólks sem hafa verið mikið í umræðunni, til þeirra fóru 40 milljarðar árið 2010 og það fer upp í tæpa 70 milljarða á næsta ári. Það er 75% aukning. Ég velti fyrir mér hversu mikið hv. þingmaður hefði viljað að aukið væri í þeim málaflokki. Tökum líka málefni aldraðra þar sem útgjöld hafa aukist um 49 milljarða á sama árabili, eða um 150%. Þetta er veruleg aukning í báðum tilfellum. Ég velti því fyrir mér hversu lengi ríkissjóður gæti hreinlega staðið undir aukningu í þeim mæli sem verið hefur á síðustu árum.

Þá langar mig að ræða sérstaklega málefni fatlaðra og öryrkja. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar er ágætlega farið yfir þá þróun sem verið hefur í nýgengi örorku og fjölgun öryrkja.(Forseti hringir.) Hvernig leggur hv. þingmaður til að við nálgumst það mikilvæga verkefni sem á auðvitað að vera gott öryggisnet (Forseti hringir.) fyrir þá sem á slíkri hjálp þurfa að halda?