149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

ályktanir miðstjórnar Framsóknarflokksins.

[14:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það síðasta sem hv. þingmaður nefndi held ég að sé eitthvað sem við gætum alla vega orðið sammála um. Ég veit að hv. þingmaður og flokkur hans hefur ekki kallað eftir óábyrgri efnahags- og fjármálastefnu með látlausum útgjöldum, heldur frekar að stefna að því að hér sé skynsamleg fjármálastefna og fjárlög og efnahagsstefna sem stuðli að því að vextir geti lækkað.

Ég er hins vegar ekki haldinn þeirri sömu villutrú og hv. þingmaður að eina leiðin til að gera það sé að ganga í Evrópusambandið. Ég trúi ekki á það náttúrulögmál að hér þurfi að vera svimandi mun hærri vextir á Íslandi en í öðrum löndum. Ég trúi að það sé hægt að lækka þá ef við fylgjum eftir skynsamlegri fjármála- og efnahagsstefnu. Ég trúi því að þar af leiðandi væri það stærsti ávinningurinn fyrir Íslendinga og þá myndum við líka lækka framleiðslukostnaðinn, líka á matvælum.

Að lokum örstutt um af hverju afurðastöðvar í kjöti eigi að fá leyfi til að starfa saman á nákvæmlega sama hátt og fiskútflutningsfyrirtækin okkar gerðu á sínum tíma þegar þau voru að byggja upp gæðamarkaðinn erlendis. Ef þau hefðu ekki fengið það leyfi á þeim tíma hefðu þau ekki búið til þessa vöru sem er 15, 20, 30% hærra (Forseti hringir.) á heimsmarkaði en á Íslandi.