149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni Miðflokksins Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir prýðisræðu. Ég get alveg sagt það hér að hv. þingmaður er góður í því að lýsa stóru myndinni, sem hann og gerði í þessari ræðu.

Ég get tekið undir margt sem kom fram í þessari ræðu. Það sem ég tek m.a. undir er að það er vissulega verið að auka útgjöldin mjög mikið. Það verður verkefni til framtíðar að skoða tekjustofnana, að þeir standi undir þessari útgjaldaaukningu sem við erum að horfa á inn í framtíðina. Þetta er stóra verkefnið.

Hv. þingmaður talaði um að þetta væri kerfisríkisstjórn. Ég held að þetta sé velferðarstjórn. Þetta er innviðauppbygging. Þetta er óhjákvæmileg innviðauppbygging. Ef maður er alveg sanngjarn þá er verið að auka hér mest til velferðar. Það er verið að fjárfesta í velferð, í menntun, fjárfesta í samgöngum, innviðum sem hafa setið eftir. Það er alveg rétt. Varðandi viðsnúninginn á upphafsárum hagvaxtarskeiðsins, við getum sagt að það hafi verið svona í aðdraganda þess að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra, þá náðust hér ævintýralegir samningar við kröfuhafa. Sem betur fer var sú leið farin að greiða niður skuldir og við erum áfram í því ferli í raun og veru sem hefur aukið svigrúmið til að fara í þessa óhjákvæmilegu uppbyggingu. En við höfum látið hana sitja það lengi eftir, samgöngurnar til að mynda, þessa uppsöfnuðu viðhaldsþörf, hún er orðin það mikil að við þurfum lengri tíma og aðrar leiðir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða leiðir hann sjái fyrir sér í því að fara hraðar í að byggja upp innviðina og samgöngukerfið.