149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni að ýmis gjöld sem aukatekjur ríkissjóðs ná yfir snerta allan almenning á einn eða annan hátt og leggjast þyngst á þá sem minnst hafa. Það er einmitt þess vegna sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hafnar því. Það gerist ekki oft að meiri hluti nefndar hafni tillögu um hækkun á t.d. vegabréfum til öryrkja og aldraðra eða ökuskírteina til eldri borgara. Það er vísbending um þetta. Síðan er alveg augljóst að þegar meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hafnar líka tillögum um töluverða hækkun á gjöldum vegna skráningar fyrirtækja, hvort heldur það eru hlutafélög eða einkahlutafélög eða einkafirma, þá eru það ákveðin skilaboð. Ég hygg að ekki séu mörg dæmi um að slíkt.

Hitt er svo annað mál, og þar er ég sammála hv. þingmanni, að það kemur skýrt fram í meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar að breyta verður vinnubrögðunum við ákvörðun gjaldanna. En ég er líka sannfærður um að mörg af þeim gjöldum sem er verið að innheimta eru langt undir þeim kostnaði sem til fellur við þá þjónustu.

Ef við ætlum að taka það skref að kostnaðargreina allt og leggja gjöldin á eftir kostnaði (Forseti hringir.) kann það að leiða pínulítið annað í ljós. Það er alveg sérstök umræða hvort (Forseti hringir.) við eigum að hafa kostnaðinn sem meginþáttinn eða aðra aðferðafræði.