149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég tek hér til máls í dag til að vekja athygli á þingsályktunartillögu, fluttri af mér og nokkrum öðrum hv. þingmönnum, um endurskoðun lögræðislaga sem vænta má að komist á dagskrá á þessu þingi, vonandi fyrir jól.

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að nefnd þingmanna geri heildarendurskoðun á lögræðislögunum sem eru gildandi í dag. Ástæðan fyrir því að tilefni er til þess að endurskoða lögræðislögin er einfaldlega sú að þau brjóta verulega á mannréttindum fólks með geðröskun og geðfötlun. Það hefur legið fyrir lengi, enda átti sér stað heildarendurskoðun lögræðislaga fyrir ekki svo löngu. En hún tók ekki á þeim gríðarstóra vanda og þeirri gríðarlega miklu mismunun sem finna má í þessum lögum heldur skilaði af sér, myndi ég segja, hálfköruðu verki, ef þá það.

Í núgildandi lögræðislögum má finna víðtæk, bein lagaleg misréttisbrot gagnvart fólki með geðröskun og geðfötlun. Það er bein lagaleg mismunun í lögræðislögunum okkar gagnvart fólki með geðsjúkdóma. Meðal annars er þar skýr heimild um frelsissviptingu fólks á þeim grundvelli einum að þjáist af geðsjúkdómi.

Það er ekki hægt árið 2018.

Núgildandi lögræðislög brjóta á gerhæfi fatlaðs fólks. Þau brjóta á rétthæfi þess, rétti þess til frelsis, rétti þess til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Þau koma ekki í veg fyrir pyndingar og aðra ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og þau brjóta á friðhelgi einkalífs fólks með fötlun.

Þessi vinna, takist vel til, er liður í lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur dregist allt of lengi á þessu þingi. Ég hef tekið eftir áhuga og vinnu annarra hv. þingmanna gagnvart þessu sama markmiði, að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Má þar nefna ágætisþingmál frá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, sem vinna að sama markmiði og ég nefni hér, þ.e. að koma lögræðislögum okkar í það horf að þau hætti að mismuna fólki á grundvelli fötlunar.

Ég kalla því eftir því hér að hv. þingmenn styðji þetta mál og veiti því framgang á þinginu.