149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að efast um að þetta bitni endilega verr á landsbyggðinni en einhverjum öðrum. Loftslagsbreytingar og þau viðbrögð sem við verðum að sýna til þess að draga úr þeim hörmungum sem þó eru fyrirséðar, munu koma okkur öllum illa. Það er engin leið fram hjá því. Það er engin sanngjörn lausn í boði á loftslagsmálunum. Hún er ekki í boði.

Spurningin er hvort við ætlum að reyna að draga sem mest úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að draga úr hörmungum framtíðarinnar, sem ég ítreka að þó eru fyrirséðar. Það er enginn raunverulegur ágreiningur um það meðal vísindamanna sem skoða þetta málefni.

Ég greiði atkvæði gegn því að lækka þetta gjald. Ég átta mig alveg á því að það þykir ekki pólitískt rétt að leggja til hækkun á einhverju sem fólk þarf, ef þetta er það sem við þurfum að gera. Þetta mun kosta fórnir. Það verður engin einföld leið til að gera þetta. Og þetta er ekki eina sem við þurfum að gera. Þetta er meðal þess sem við þurfum að gera, að hafa kolefnisgjald. Það mun kosta fórnir. Og það verður vont. Það verður erfitt. (Forseti hringir.) Sorrí, ef það þykir ekki pólitískt rétt, en þannig er það bara. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)