149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við skrifuðum það beinlínis í stjórnarsáttmálann að tryggingagjaldið þyrfti að lækka einmitt vegna þess hversu lítið svigrúm væri til launahækkana eftir miklar launahækkanir undanfarin ár. Við stöndum við það sem segir í stjórnarsáttmálanum, að setja það í forgang með því að í þessum fjárlögum lækkar gjaldið um 0,25%. Það mun aftur lækka eftir eitt ár vegna þess að við ætlum að lögfesta 0,5% lækkun í einu lagi. Tryggingagjaldið fór hæst upp í 8,65% og stendur í 6,85% á þessu ári. Nú á það að lækka um 0,5% til viðbótar.

Þannig að það er rangt sem haldið hefur verið fram, að gjaldið hafi ekki verið lækkað. Það er í raun og veru alveg ótrúlegt hversu lítið fer fyrir meðvitund manna, vil ég segja, um það hversu gríðarlega þeir liðir hafa hækkað sem gjaldinu er ætlað að fjármagna. Þeir hafa hækkað síðan 2010. Ef við horfum bara á bætur til örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega, bara þessa tvo liði, er hækkunin í kringum 80 milljarðar (Forseti hringir.) að raungildi á átta árum.

Svo koma menn hér ítrekað upp og segja: Þeir liðir sem gjaldið á að standa undir breytast ekkert.

Það er alrangt. Ég segi nei.