149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:43]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að koma upp og spyrja út í þetta, vegna þess að það er mjög nauðsynlegt að það komi skýrt fram að við erum ekki að leggja til að framlög til málefna öryrkja verði lækkuð um 5 milljarða.

Það sem við erum hins vegar að leggja til er að ráðherrar fái ekki þær fjárheimildir sem þeir óska af þinginu, fjárveitingavaldinu, ef þeir útskýra ekki fyrir okkur í hvað þeir ætla að nota peningana. Við eigum skýlausa kröfu á að vita það og við ætlum ekki að veita neinar fjárheimildir blindandi og án þess að vita í hvað þær fara. Út á það gengur þessi breytingartillaga.