149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Hér leggur þingflokkur Pírata til afnám aðhaldskröfu gagnvart útlendingamálum. Þessi málaflokkur þarf hvað síst á aðhaldskröfu að halda og skýtur þetta raunar skökku við þar sem dómsmálaráðherra og útlendingayfirvöld almennt, hafa m.a. réttlætt grimmilega brottvísunarstefnu sína gagnvart svokölluðum tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd með því að fjármunir í þessum málaflokki væru af skornum skammti. Að þá bæri að nýta betur gagnvart þeim aðilum sem sækja um alþjóðlega vernd sem þurfa raunverulega á henni að halda.

Þessi fyrirætlun ríkisstjórnarinnar hefur náð vel fram að ganga. Svokölluðum tilhæfulausum umsóknum hefur fækkað verulega. Við leggjum til að þeir sem ríkisstjórnin telur vera réttmæta umsækjendur um alþjóðlega vernd fái þá alla vega að njóta þeirra fjármuna sem ríkisstjórnin sagði að þeir ættu að renna til.