149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:18]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir okkur metnaðarfull samgönguáætlun. Í fyrsta skipti er hún lögð fram til 5 og 15 ára og í fyrsta skipti í mjög langan tíma, ef nokkurn tímann, er hún fullfjármögnuð. Hér er verið að tala um verulegar viðbætur, við erum að tala um 39 milljarða og hækkunin milli 5 og 6 milljarðar frá því í fyrra.

Verkefnin í samgöngumálum eru gríðarstór og þau kalla á samstillt átak til að ná árangri og koma okkur á ásættanlegan stað. Meginmarkmiðin lúta að greiðari, hagkvæmari, öruggari og umhverfisvænni samgöngum sem styrkja jákvæða byggðaþróun.

Það er mín bjargfasta trú að besta fjárfesting þjóðarinnar til framtíðarinnar sé að fjárfesta í samgöngumannvirkjum. Þannig getum við byggt landið allt, nýtt tækifærin sem eiga eftir að koma. Ég fagna þessari framlagningu og ríkisstjórnin hefur talað skýrt: Við leggjum áherslu á innviðauppbyggingu.