149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:32]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér er ekki á ferðinni stærsta breytingartillagan en þetta er engu að síður mjög mikilvæg breytingartillaga. Hér leggjum við til að 300 millj. kr. renni í svokallaðan sjónvarpssjóð sem styrkir leikið sjónvarpsefni. Þá upphæð munar ríkið ekkert um. Það munar miklu fyrir greinina. Því til viðbótar má nefna að ríkið mun hagnast á þessari innspýtingu enda skilar sérhver króna sér margfalt til baka í ríkiskassann.

Framlag frá opinberum sjóðum er oft frumforsenda þess að hægt sé að sækja styrki úr sjóðum í útlöndum, en vegna skorts á fjármunum frestast t.d. upptökur á Föngum 2, og önnur tækifæri verða jafnvel aldrei til. Sérstök hvatning hefur borist okkur frá Samtökum kvikmyndaleikstjóra, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félagi kvikmyndagerðarmanna og Félagi leikskálda- og handritshöfunda um að styðja þessa tillögu. Ég vil því biðja hv. þingmenn um að greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni en ekki samkvæmt ráðherraræðinu.