149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Samfylkingin leggur til að 1 milljarður renni til reksturs hjúkrunarheimila í landinu og að þessi upphæð bætist við þær 300 millj. kr. sem stjórnarmeirihlutinn treystir sér til að setja í reksturinn. Samtök rekstraraðila hafa nefnilega óskað eftir 1.500 millj. kr., en með þessari breytingu er þeirri kröfu að nokkru mætt. Vandinn við þennan málaflokk er að rekstur hans er á svo mörgum höndum. Meðal annars reka fjölmörg sveitarfélög hjúkrunarheimili með halla og þurfa þá að mæta honum með því að taka aura úr öðrum málaflokkum, tómstundum unglinga, menningarlífi, tómstundum aldraðra jafnvel. Í því er ekkert réttlæti þar sem ríkið á að greiða fyrir þetta. Þá hafa komið fulltrúar rekstraraðila og talað um að það þyrfti bókstaflega að fara að skera niður kjöt á sunnudögum. Getur þá hv. þingheimur verið sammála um það að í orðsins fyllstu merkingu verði þá búið að skera inn að beini?