149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hér eru undir vinnumarkaðsmál. Í fjárlögum er lagt til að aukið verði um 260 millj. kr. í Ábyrgðasjóð launa í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um útgjöld ársins 2019. Einnig er undir þessum lið lagt til að 250 millj. kr. verði varið til vinnusamninga öryrkja. Vinnusamningar eru árangursríkasta úrræðið sem í boði er til að auka virkni fólks með skerta starfsgetu. Þeir eru í mörgum tilfellum hluti af starfsendurhæfingu öryrkja og því mikilvægur liður í að virkja fólk til varanlegrar endurkomu á vinnumarkað. Í fjármálaáætlun 2018–2022 var boðið að þetta vinnumarkaðsúrræði yrði eflt til muna með um 660 millj. kr. aukningu á tímabilinu. Ásókn í úrræðið hefur reynst meiri en áætlað var og tekur umbeðin viðbótarfjárheimild mið af því að ekki þurfi að grípa til takmarkandi aðgerða. Það er gott.