149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er gaman að ljúka deginum á gömlum kunningja sem Vaðlaheiðargöngin eru og styttist nú sem betur fer í að þau verði tekin í gagnið, sú mikla samgöngubót sem þar er á ferð. Þegar þetta mál var hér til umfjöllunar síðast fyrir rúmu ári sagðist ég vonast til þess að næst þegar við fengjum að fjalla um að endurfjármagna ætti göngin, yrði það til að við horfðumst í augu við orðinn hlut og gerðum þessa framkvæmd að ríkisgöngum, sem bendir til að sé raunin varðandi alla fjármögnun þeirra.

Ég studdi ekki þá breytingu sem gerð var á lögum um Vaðlaheiðargöng fyrir rúmu ári og styð því heldur ekki þá tillögu sem hér liggur fyrir.