149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

forritunarverkefni í grunnskólum.

[10:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Talandi um tækniframfarir er micro:bit-tölvan lítil, handhæg og forritunarleg tölva fyrir unga sem aldna. Samt er tölvan aðallega námstæki, ætlað börnum til að læra inn á undraheim tölvunnar og tölvutækninnar. Um er að ræða metnaðarfullt verkefni þar sem micro:bit-tölvunni var dreift til allra nemenda í 6. og 7. bekk á Íslandi. Það var sett af stað árið 2016 og komu fjölmargir aðilar að því verkefni. Fjöldi fyrirtækja styrkti verkefnið og krakkarnir voru með sérstaka síðu fyrir tölvuna þar sem hægt var að finna alls konar verkefni, myndbönd og þætti um sögu tölvunnar.

Þann 5. maí sl. var tilkynnt á vef Stjórnarráðsins að hópur nemenda í tölvunarfræði hefði lokið við að þýða forritunarritil tölvunnar yfir á íslensku. Þetta eða sambærilegt verkefni er gríðarlega mikilvægt fyrir vegferð íslenska menntakerfisins inn í fjórðu iðnbyltinguna. Þetta er fullkomið innlegg fyrir eflingu stafrænna smiðja, samanber tillögu sem samþykkt var í þinginu í vor.

Lagt hefur verið í þó nokkra fjárfestingu vegna þessa verkefnis. Búið hefur verið til námsefni, þekking aukin og stuðningskerfi sett upp. Tölvan er þar að auki mjög ódýr. Það eru engin fagleg rök sem ég finn fyrir því að hætta við þetta verkefni. Ávinningurinn er augljós í dag og til framtíðar, bæði miðað við samþykkta stefnu og almenna skynsemi.

Af hverju hætti ráðuneytið að fjármagna þetta verkefni? Af hverju er allri fjárfestingunni kastað út um gluggann? Af hverju fáum við ekki að vita þegar verkefnum er slaufað svona og af hverju þarf ég að frétta það úti í bæ? Ég finn enga tilkynningu frá ráðuneytinu um þessa ákvörðun.

Hæstv. ráðherra. Hvað er í gangi hérna?