149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

dvalarleyfi barns erlendra námsmanna.

[10:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, sem þó var ekki með öllu fullnægjandi. Ég var einmitt að benda á að það er ekki farið að skýru lagaákvæði 5. mgr. 71. gr., sem segir einmitt að í sérstökum aðstæðum eigi ekki að fara eftir því að það verði að vera meistaranám eða doktorsnám foreldra sem veiti þessa heimild fyrir barn til að dvelja hérna. Það er einmitt tekið alveg skýrt fram í lögunum. Þess vegna spurði ég ráðherrann. Stofnunin er jú undirstofnun og ráðherra ber ábyrgð á stofnunum sínum og ætti mögulega að lesa þær fréttir sem berast af ákvörðunum undirstofnana sinna. Þetta mál hefur verið í fjölmiðlum. Hvers vegna fer stofnunin ekki að lögum?

Einhverra hluta vegna vísar stofnunin í úrskurð kærunefndar útlendingamála og bendir á að þetta eigi bara við um börn við sérstakar aðstæður og með knýjandi þörf. (Forseti hringir.) Þá er knýjandi þörf allt í einu orðin eitthvað nýtt í lögunum eða reglugerð, en þess sjást hvergi merki þar.

Þá velti ég fyrir mér: (Forseti hringir.)Er ráðherra kunnugt um að það sé verið að bæta við lög eða reglugerðir, eða alla vega túlka skýr lög frá Alþingi, (Forseti hringir.)á þann hátt að verið sé að þrengja enn frekar skilyrði til veitingar dvalarleyfis(Forseti hringir.) og fara þannig á skjön við vilja löggjafans?

(Forseti (GBr): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða tímamörk.)