149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

húsnæðisbætur.

140. mál
[15:39]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðisbætur. Flutningsmenn eru þingflokkur Samfylkingarinnar, en auk þeirrar sem hér stendur eru það Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson og Oddný G. Harðardóttir.

Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar á 11. gr. laga um húsnæðisbætur:

Orðin „í húsnæðisúrræðum skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks“ í a-lið falla brott.

Orðin „á heimavistum eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis á Íslandi“ í c-lið falla brott.

Frumvarp svipaðs efnis var síðast flutt á 145. þingi en náði ekki fram að ganga. Varðaði það frumvarp eingöngu námsmenn. Málið er nú flutt í breyttri mynd og nær til fleiri hópa, þ.e. hvort tveggja námsmanna sem og öryrkja. Ástæða þessa er að húsnæðisvandi fólks á leigumarkaði hefur verið mjög mikill undanfarin ár og dylst engum. Sveitarfélögin hafa brugðist við þessum húsnæðisvanda af mismiklum krafti en ljóst er að fjölmargir einstaklingar eiga í verulegum erfiðleikum með að finna sér leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Þar sem fjárhagur og lítið framboð á litlum íbúðum kemur í veg fyrir að einstaklingar geti leigt sér íbúðir einir og sér á hinum frjálsa markaði bregða margir á það ráð að deila íbúð með öðrum þar sem hver og einn hefur sitt herbergi en bað og eldhús og mögulega stofa, eru sameiginleg.

Meginreglan varðandi þá sem búa í herbergjum með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi og baðherbergi er sú að þeir njóta ekki húsnæðisbóta, enda telst slíkt fyrirkomulag ekki til „íbúðarhúsnæðis“, einhverra hluta vegna. Árið 2001 var réttur til húsnæðisbóta rýmkaður hvað varðar námsmenn á framhalds- og háskólastigi þannig að þeir sem leigja á heimavist eða á námsgörðum skyldu njóta réttar til húsnæðisbóta þó svo að þeir deildu aðgangi að eldhúsi og baði. Þá þótti rétt að telja slíka aðstöðu námsmanna til íbúðarhúsnæðis, enda kölluðu félagslegar aðstæður námsmanna á slíkt fyrirkomulag. Þá var jafnframt gerð undanþága fyrir þá fötluðu einstaklinga sem búa í húsnæðisúrræðum, samkvæmt 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, eða húsnæðisúrræðum sem kallast formleg sambýli fyrir fatlaða. Þessir einstaklingar fá þá undanþágu frá því skilyrði að vera með séreldhúskrók og sérbaðherbergi.

Í ljósi þess að ekki er nægilegt framboð af rýmum í heimavist eða námsgörðum, sem og áðurnefndum húsnæðisúrræðum fyrir fatlaða, geta fjölmargir einstaklingar ekki nýtt sér slíkt úrræði. Þar eru langir biðlistar til að komast að. Þessir einstaklingar verða vegna fjárhagsstöðu sinnar eða af öðrum ástæðum að leigja í félagi við aðra einhvers konar kommúnu, eins og það hefur verið kallað.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sú takmörkun sem finna má í 11. gr. laga um húsnæðisbætur til handa fötluðu fólki og námsmönnum er varðar tegund sambýla verði felld brott. Þessi undanþága verði einfaldlega opin. Með því verði hagur þessara einstaklinga, námsmanna og fatlaðra, stórbættur og þeir njóti sama stuðnings hvort sem þeir leigja í húsnæðisúrræðum fatlaðra, á námsgörðum eða á almennum markaði.

Í a-lið 1. gr. er lagt til að réttur fatlaðs fólks til húsnæðisbóta verði rýmkaður. Fram til þessa hafa þeir einir sem leigja í samnýttu húsnæði, samanber 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, átt þess kost að fá húsnæðisbætur. Ljóst er að slík búsetuúrræði bjóðast auðvitað ekki öllum sem gætu nýtt þau, hvort sem er vegna fjárhagsstöðu eða vegna þess að þeir kjósa að búa með öðrum. Því er lögð til þessi breyting á lögum um húsnæðisbætur.

Í b-lið 1. gr. er lagt til að réttur námsmanna til húsnæðisbóta verði rýmkaður. Fram til þessa hafa þeir einir sem leigja í samnýttu húsnæði, á heimavist eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis á Íslandi, átt þess kost að fá húsnæðisbætur. Ljóst er að slík búsetuúrræði bjóðast ekki öllum þeim sem þess óska. Þess vegna er lögð til þessi breyting á lögunum.

Ég vil hvetja þingheim til að skoða þetta réttlætismál gaumgæfilega. Það kann hvort tveggja að liðka til á mjög svo löskuðum húsnæðismarkaði sem og að gefa þeim sem minna fé hafa á milli handanna kost á að velja sér húsnæðisfyrirkomulag að eigin vali. Það skiptir máli. Það getur bæði haft góð áhrif félagslega, að eiga þess kost að búa með öðru fólki, þeir sem þess óska, og auðvitað líka fjárhagslega. Þá getur þetta haft umtalsverð áhrif. En í dag falla húsnæðisbæturnar einfaldlega niður af því að fólk er ekki með þetta rými út af fyrir sig, þ.e. bað og eldhús.

Aðeins varðandi húsnæði. Það hefur verið talað um að skortur sé á litlu húsnæði, litlum íbúðum, um allt land. Þarna getur maður líka séð fyrir sér að stærri eignir fari auðveldlega í útleigu af því að fleiri geti komið sér saman um að búa í stærri eignum.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hæstv. velferðarnefndar og 2. umr. að málsmeðferð þar lokinni.