149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

húsnæðisbætur.

140. mál
[15:50]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Þetta er mjög mikilvæg umræða.

Aðeins varðandi það hvort hætta sé á að leiguverð hækki með frekari húsaleigubótum þá er auðvitað áfram mjög takmarkaður hópur sem nýtur húsnæðisbóta því að þetta er allt tekjutengt. Það eru þeir sem helst þurfa á því að halda vegna lágra tekna sem eiga rétt á húsnæðisbótum, þannig að við erum auðvitað líka með það hvaða hópar það eru helst sem þurfa aðstoðina.

Ég var spurð fyrr í dag: Af hverju ekki allir? Af hverju erum við með þetta skilyrði, að þú verðir að vera með þitt einkabaðherbergi og þitt einkaeldhús? Ég er alveg sammála því að það má alveg víkka svo að allir, ekki bara námsmenn og öryrkjar, geti búið í samfélagi við aðra í stærri eignum.

En við í þingflokki Samfylkingarinnar vildum byrja á því að hugsa um þá hópa sem eiga hvað erfiðast með að finna sér þak yfir höfuðið og freista þess frekar að reyna að koma þessu góða máli áfram, að við fengjum stuðning jafnvel frá stjórnarflokkunum til að koma því áfram. Þetta er mikið réttlætismál og ég held að það muni ekki sliga neitt kerfi þó að við hleypum þeim hópum inn.

Það er ástæðan fyrir því að þetta er ekki bara alger breyting heldur fyrir þessa tvo hópa, alla vega til að byrja með.