149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

virðisaukaskattur.

52. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Þetta mál var áður lagt fram á 146. og 148. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Með frumvarpinu er lagt til að einnota og margnota tíðavörur, þar með talin dömubindi, tíðatappar og álfabikarar, ásamt öllum tegundum getnaðarvarna, falli í lægra þrep virðisaukaskatts. Markmið frumvarpsins er að stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara ásamt því að jafna aðstöðumun notenda mismunandi forma getnaðarvarna.

Með þessum leiðréttingum færist Ísland nær þeirri þróun sem hefur orðið í öðrum ríkjum með tilliti til aðgengis að nauðsynlegum hreinlætisvörum og getnaðarvörnum á undanförnum árum. Í dag eru tíðavörur kvenna og allar getnaðarvarnir nema smokkar skattlagðar í efsta þrepi virðisaukaskatts, 24%. Venjan hefur verið sú að nauðsynjavörur séu í neðra virðisaukaskattsþrepi, sem í dag er 11%. Þar er að finna vörur eins og matvæli, margnota bleiur og aðrar vörur til manneldis. Þó eru fleiri vörur og þjónusta í neðra þrepinu. Sem dæmi má nefna útleigu hótelherbergja, þjónustu ferðaskrifstofa, afnotagjöld sjónvarpsstöðva, sölu tímarita og dagblaða, geisladiska o.fl.

Það verður því að teljast heldur óeðlilegt — og furðulegt — að þessar miklu nauðsynjavörur sem hér er rætt um séu skattlagðar í efra skattþrepi. Hér er enda aðeins um að ræða vörur sem konur nota. Það er dýrt að vera kona. Rannsókn sem framkvæmd var 2016 sýndi fram á að sambærilegar vörur kostuðu að meðaltali 7% meira þegar þær voru markaðssettar til kvenna. Hér er ég að vísa til þess sem hefur verið kallað „bleiki skatturinn“. Hann lýsir sér í því að vara kostar meira, einfaldlega af því að hún er í bleikum pakkningum frekar en svörtum, hvítum eða bláum.

Það að færa tíðavörur og getnaðarvarnir kvenna í neðra virðisaukaskattsþrep er ekki bara sanngjarnt heldur er það sjálfsagt réttindamál. Enginn kostnaður er áætlaður vegna þessara breytinga en áætlað tekjutap vegna virðisaukaskatts er um 41,99 millj. kr. á ári. Á móti skilar bætt lýðheilsa sparnaði í heilbrigðiskerfinu.