149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

virðisaukaskattur.

52. mál
[16:15]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni fyrir kynninguna á þessu máli sem hefur áður komið fram, um breytingar á lögum um virðisaukaskatt á tíðavörum og getnaðarvörnum. Í ljósi þess hvernig umræðan hefur verið hjá okkur í dag, í ljósi þess sem við höfum verið að ræða um jafnréttismál og annað slíkt, er mjög athyglisvert það sem hv. frummælandi sagði, að ef eitthvað er pakkað í bleikt þá kosti það meira. Er það í alvöru raunin? Hvað þýðir það? Hvað segir það okkur um mannskepnuna, kvenfólk, karlmenn? Ég skil ekkert í þessu af því að þetta hlýtur að vera sameiginlegt mál okkar allra. Af hverju eru smokkar í lægra þrepi en aðrar getnaðarvarnir? Við hljótum að þurfa að hafa eitthvert samræmi í þessu, það liggur ljóst fyrir.

Í greinargerð frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðstöðumun notanda mismunandi forma getnaðarvarna.“

Þetta finnst mér alveg sjálfsagt að gera. Ég er mikill jafnréttissinni og við þurfum að gæta jafnræðis. Með þessari leiðréttingu er því haldið fram að Ísland myndi færast nær þeirri þróun sem hefur orðið í öðrum ríkjum með tilliti til aðgengis að nauðsynlegum hreinlætisvörum og getnaðarvörnum á undanförnum árum. Og það er vel. Það er reyndar ekkert getið um það hvaða þjóðir það eru og væri forvitnilegt að sjá það. Nú sér maður að ýmsar tíðavörur liggja frammi ókeypis á nokkrum stöðum og það er gott. Það er fínt að auka aðgengi að þeim og það er mikið hagræði af því fyrir ungar stúlkur og jafnvel eldri konur að hafa aðgengi að þeim. Ég held að það sé bara hið besta mál.

Oft er það þannig með góð mál að þau þurfa að koma nokkrum sinnum fram til að ná í gegn. Ef þetta er eitt púsl í það spil að bæta lýðheilsu er ekki hægt annað en að taka undir það og vona að málið nái fram að ganga. Ég þakka flutningsmönnum fyrir að leggja málið fram og fylgist spennt með framgangi þess.