149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

virðisaukaskattur.

52. mál
[16:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir ræðuna og þetta frumvarp. Ég þakka líka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, spurning mín og vangaveltur sneru einmitt að þessu varðandi smokkana. Ég viðurkenni fákunnáttu mína. Það kom mér verulega á óvart að heyra að smokkar væru í lægra þrepi en aðra getnaðarvarnir í efra þrepi og mér finnst töluvert misræmi í þeirri staðreynd.

Almennt er ég þeirrar skoðunar, eins og hefur kannski komið fram áður, að ég vil hafa lög sem skýrust og einföldust og hafði lengi talað fyrir því að við værum bara með eitt virðisaukaskattsþrep. Það er alltaf ákveðin flækja í því fólgin að vera með fleiri þrep og þetta er augljóslega eitt dæmi um það. Nú veit ég að svo er líka hægt að færa alls konar rök fyrir hinu eins og oft er þegar farið er ofan í hlutina. Mér finnst þetta mjög áhugavert og full ástæða til að skoða þetta frekar.

Ég held að ég geti líka svarað hv. þm. Þórunni Egilsdóttur með það að það er margsannað að bleikar vörur eru dýrari. Það er ótrúleg staðreynd og segir kannski líka margt um okkur konur sem neytendur; við látum slíkt yfir okkur ganga, búum til þennan markað. Þegar vörum er pakkað í bleikt og þær markaðssettar sérstaklega gagnvart okkur þá virðumst við vera tilbúnar að borga fyrir þær hærra verð.

Ég fagna þessari tillögu og ítreka það sem ég hef áður sagt að mér finnst mikilvægt að lögin séu einföld. Virðisaukaskattslögin eru ekki nægjanlega einföld með nokkrum þrepum. Ég tala ekki um þegar við förum svo að taka ákveðna þætti út úr lögunum eða setja í núllþrep, þá flækist þetta alltaf meira og meira. Það gerir það líka að verkum að eftirlit með virðisaukaskatti og brotum og svikum er erfiðara eftir því sem kerfið er flóknara. Í ljósi þess að við búum hvort sem er við þetta fyrirkomulag finnst mér full ástæða til að skoða hvort þær vörur sem hér eru tilgreindar, getnaðarvarnir og tíðavörur, ættu ekki með réttu að falla í lægra þrep virðisaukaskattsins.