149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruhamfaratrygging Íslands.

183. mál
[16:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir framsöguna og framlagningu þessa frumvarps er varðar breytingar á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Á síðasta ári tókum við þau lög til endurskoðunar og þá breyttist nafnið í Náttúruhamfaratryggingu Íslands úr Viðlagatryggingu Íslands sem verið hafði. Ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem við tókum þetta fyrir, ég held ég fari rétt með á síðasta þingi, og þá spannst töluverð umræða um náttúruhamfarir. Við fórum meira í umræðuna um hvað er af mannavöldum, fengum m.a. jarðfræðiprófessor til okkar á fund. Þetta var mjög upplýsandi allt saman, sú umræða.

En mér þykir gott að hv. þingmaður nefndi einmitt gróður- og skógarelda. Ég held að full ástæða sé til að skoða það og ekkert er því til fyrirstöðu að við förum betur yfir þennan lagabálk í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Mig langar aðeins að vitna í minnisblað frá stofnuninni, sem þá hét Viðlagatrygging Íslands og heitir í dag eftir samþykkt laganna Náttúruhamfaratrygging Íslands, sem hún sendi okkur meðfram umræðu okkar um frumvarpið sem lá fyrir á síðasta þingi, með leyfi forseta:

„Stofnunin telur mikilvægt að ákvæði um bótaskyldu stofnunarinnar vegna tjónsatburða séu eins skýr og unnt sé. Slíkt er mikilvægt fyrir stofnunina en ekki síður fyrir eigendur sem vátryggja eignir sínar hjá stofnuninni gegn náttúruhamförum. Í núverandi lögum er kveðið á um að VTÍ, eins og stofnunin lét þá, skuli vátryggja gegn beinu tjóni af völdum eftirfarandi náttúruhamfara: eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Tilgangurinn með rekstri Viðlagatryggingar er og hefur verið frá upphafi að vátryggja gegn því sem er utan mannlegs máttar að hafa stjórn á. Túlkun á bótaskyldu fram til þessa hefur verið í samræmi við það.“

Það var kannski sérstaklega þetta, að vátryggja það sem er utan mannlegs máttar að hafa stjórn á. Ég hefði, án þess að vera sérfræðingur í því, einmitt talið að skýstrókar væru eitt af því. Því er full ástæða til að skoða það. En ég velti líka fyrir mér hver afstaða tryggingafélaga er til slíkra tjóna. Því að það kemur líka fram í umsögn þeirra, ég man ekki hvort það var nákvæmlega í því minnisblaði sem ég vitnaði til eða í annarri umsögn frá Viðlagatryggingu, um að það væri mjög mikilvægt aðgreina annars vegar það sem vátryggingafyrirtæki á hinum almenna markaði eru að starfa við og hins vegar Náttúruhamfaratrygging Íslands. Og mikilvægt að þessi mikilvæga ríkisstofnun, sem Náttúruhamfaratrygging Íslands er, sé ekki að fara á svig og bæta það sem hægt er þá líka að vátryggja sig fyrir hjá almennum tryggingafélögum.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hafi skoðað það eitthvað, bæði hvað skýstróka og gróður- og skógarelda varðar. Ef svo er væri ágætt að hann kæmi hingað upp og segði okkur aðeins frá því. En annars hygg ég að við í nefndinni munum fara sérstaklega yfir það mál.