149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

bætur til öryrkja.

[15:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku afgreiddi þingið fjárlagfrumvarp 2019 til 3. umr. Í þeirri umræðu með nafnakalli afneitaði stjórnarmeirihlutinn fátækasta fólki á Íslandi þrisvar áður en bjalla forsetans gall tvisvar. Það er ljóst að fátækasta fólk á Íslandi þarf að bíða enn um sinn eftir réttlæti í boði Katrínar Jakobsdóttur og hennar ríkisstjórnar. Í útgefinni ályktun frá stjórn Öryrkjabandalagsins frá 22. nóvember auglýsir ÖBÍ eftir virðingunni og segir, með leyfi forseta:

„Stjórn ÖBÍ lítur á afgreiðslu annarrar umræðu um fjárlagafrumvarpið sem alvarleg svik við gefin loforð.“

Um leið auglýsir stjórnin eftir því „góða samráði“ sem ríkisstjórnin er stöðugt að hreykja sér af.

Ríkisstjórnin kaus að mæta þessum hópi með kylfu og gulrót að vopni, gulrót sem felst í því að menn fái kjarabætur en kylfu sem gerir öryrkjum að gangast undir starfsgetumat áður en það er eiginlega tilbúið út af fyrir sig. Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hyggist beita áhrifum sínum nú milli 2. og 3. umr. til þess að þær bætur sem búið var að lofa Öryrkjabandalaginu, þ.e. þessum 4 milljörðum sem eru nota bene til, að þetta ágæta fólk sem berst við fátækt á hverjum degi verði ekki látið bíða eftir réttlæti enn um sinn heldur fái þessa 4 milljarða inn í bætur nú þegar um áramótin.