149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[15:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Flugrekstur er kerfislega mikilvægur í hagkerfi landsins. Fjárhagslegir burðir íslensku millilandaflugfélaganna skipta þjóðarbúið miklu máli, varða efnahagslegan stöðugleika og flugöryggi. Ferðaþjónustan er okkar stærsta atvinnugrein og stendur hún undir 42% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar. Ferðaþjónustan á því allt undir góðum og öruggum flugsamgöngum,

Bæði íslensku millilandaflugfélögin, Wow og Icelandair, hafa glímt við rekstrarerfiðleika á árinu sem rekja má til aukinnar samkeppni, auk þess sem olíuverð hefur hækkað mikið um tíma, eða allt að 50%. Í júlímánuði birti Icelandair afkomuviðvörun sem vakti hörð viðbrögð markaðarins. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu mikið og forstjóri félagsins sagði af sér.

Í byrjun október var Primera flugfélagið gjaldþrota. Félagið var með áætlunarflug til og frá landinu og var í íslenskri eigu. Þrot félagsins olli mörgum einstaklingum og fyrirtækjum tjóni. Koma Wow flugfélagsins inn á íslenskan millilandaflugmarkað árið 2011 var mikilvæg fyrir hagkerfið. Fjöldi ferðamanna hefur aukist verulega og þeir sem koma til landsins koma aðallega með vélum frá Icelandair og Wow.

Umfjöllun fjölmiðla um flugfélagið Wow var lengi vel jákvæð og fyrirtækið var í miklum vexti. Viðsnúningur verður síðan til hins verra árið 2017. Engar fjárhagsupplýsingar voru birtar fyrr en um miðjan júlí 2018 og birti félagið ársreikning sinn mjög seint. Í ágústmánuði komu síðan fréttir af taprekstri og að félagið væri að fara í skuldabréfaútboð. Í tengslum við skuldabréfaútboðið kom fram að eiginfjárhlutfall Wow hefði verið komið niður í 4,5% í júlí sl. Skuldabréfaútboðið dugði síðan ekki til. Ljóst var að Wow var komið upp við vegg og átti ekki laust fé til að standa við skuldbindingar sínar. Af þeirri ástæðu er síðan leitað til Icelandair um kaup á félaginu.

Hefði félagið farið í þrot á þessum tíma hefði það haft mikil áhrif en um 1.000 manns vinna hjá fyrirtækinu og flytur félagið um 37% allra farþega sem koma til landsins um Keflavíkurflugvöll. Afleidd áhrif yrðu umtalsverð.

Hliðaráhrif þessa máls hafa verið mikil. Peningastefnunefnd Seðlabankans gaf það út að ein ástæðan fyrir skarpri veikingu krónunnar undanfarið hafi verið óvissa um fjármögnun Wow. Eins og fram hefur komið hefur Icelandair nú keypt Wow en fyrirvörum vegna kaupanna hefur ekki verið aflétt. Hluthafafundur þarf að samþykkja kaupin en boðað hefur verið til hans innan fáeinna daga. Nú í hádeginu bárust þær fréttir að ólíklegt væri að fyrirvararnir yrðu uppfylltir fyrir fundinn og er það áhyggjuefni.

Herra forseti. Ljóst er að staða íslensku millilandaflugfélaganna er erfið. Samgöngustofa hefur eftirlit með rekstri flugfélaganna og vinnur samkvæmt reglugerð frá 2012 um flugrekstur og flugþjónustu innan EES. Reglugerðin fjallar um veitingu heimilda og leggur síðan áherslu á áhrif á flugfarþega, að þeir geti fengið endurgreitt og flugvélar séu í lagi. Reglugerðin fjallar hins vegar ekkert um þjóðaröryggi eða þjóðhagsvarúð. Samgöngustofa á að framkvæma reglulegt mat á fjárhagsstöðu flugrekenda.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig var eftirliti Samgöngustofu með flugfélaginu Wow háttað? Hvernig gat lausafjárstaða félagsins orðið með þessum hætti? Telur hæstv. ráðherra að Samgöngustofa sem eftirlitsaðili hafi þann mannafla og þá sérþekkingu sem þarf til að sinna svo kerfislega mikilvægu eftirliti?

Forstjóri Samgöngustofu hefur sagt að reynslumiklir menn stýri íslensku millilandaflugfélögunum. Frá því að þau orð féllu í ágúst sl. hefur forstjóri Icelandair sagt af sér, flugfélagið Primera orðið gjaldþrota og líftími flugfélagsins Wow ræðst eftir nokkra daga.

Telur hæstv. ráðherra eðlilegt að eftirlitsaðili eins og Samgöngustofa gefi frá sér slíka yfirlýsingu? Telur ráðherra ekki eðlilegt að horft sé til þjóðaröryggis og þjóðhagsvarúðar þegar fjárhagslegir burðir íslensku millilandaflugfélaganna eru skoðaðir?

Og að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Liggur fyrir aðgerðaáætlun af hálfu ráðuneytisins ef niðurstaða hluthafafundar Icelandair verður sú að félagið telji það ekki fýsilegan kost að kaupa flugfélagið Wow?