149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svolítið gaman af því að það fer alveg eftir því á hvaða stjórnarflokk maður hlustar hverju sinni hvað sagt er. Í aðra röndina erum við alveg gargandi frjálshyggjuflokkur, okkur er ekki viðbjargandi, við erum orðin svo rosalega hægri sinnuð og við trúum á markaðinn. Já, við trúum reyndar á markaðinn. Við treystum því að markaðurinn sé betur til þess fallinn en einmitt refskák stjórnmálanna að ákveða hvert veiðigjaldið sé hverju sinni og ég held að við séum ágætisbirtingarmynd af henni hér í salnum og við ríkisstjórnarborðið. Þannig að ríkisstjórnarflokkarnir verða að ákveða sig hvort við erum frjálshyggjuflokkur eða sósíalistaflokkur.

Ég veit ekki hvað hv. þingmaður var að vitna í varðandi Indriði H. Þorláksson en ég held að greinin hans (Gripið fram í.) og margt sem Indriði H. Þorláksson hefur skrifað sé ansi hreint gott. Ég vil hvetja hv. þingmann til að lesa (Gripið fram í.) veiðigjaldagreinina sem kemur með marga athyglisverða punkta, ekki síst þann að leggja frumvarpið til hliðar, gefa okkur tíma til að vinna það betur, (Forseti hringir.) til að tryggja fyrst og síðast hagsmuni þjóðarinnar. Það eru hvorki Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn né Framsókn að gera með þessu frumvarpi.