149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að vita að leiðarljós Viðreisnar í veiðigjaldamálum og skattamálum er Indriði H. Þorláksson. Það er gott að fá það staðfest enn einu sinni í dag. En látum það liggja á milli hluta og látum líka liggja á milli hluta að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talar eins og það leiki einhver agalegur vafi á því að fiskimiðin, auðlindin í sjónum, sé sameign þjóðarinnar þegar það er fyrsta setningin í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig er með mann sem hefur tekjur upp á 1 milljón og greiðir 500.000 í skatta og hefur næsta ár 500.000 í tekjur en greiðir 250.000 í skatta, er búið að lækka skattana á þann mann? Er það skattalækkun, hv. þingmaður, að greiða 250.000 af 500.000 kr. tekjum og greiða 500.000 (Forseti hringir.) fyrra árið af 1 milljón í tekjur?