149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Já, hv. þingmaður talar um að stjórnmálamenn ákveði veiðigjöld og hann hefur talað mikið um það í sinni ræðu að það eigi að fara uppboðsleið eða markaðsleið, það sé besta leiðin til að ná sem mestum arði út úr auðlindinni.

Markaðsleiðin. Eru menn þá að tala um að mammon eigi að ráða því hvernig byggð þróast í landinu og hvar sameign þjóðarinnar lendi? Það er mammon hjá Samfylkingunni, markaðsleiðin. Það er nú svokallaður vinstri flokkurinn þegar gæran dettur af honum. Það er mammon, markaðsleiðin sem er langbesta leiðin að skipta aðgangi og auðlindinni upp til þjóðarinnar. Þetta er sorglegt að heyra. Og vitandi það að útgerðum í krókaaflamarkskerfinu hefur fækkað um fjórðung á síðustu fjórum árum og á síðustu 12 árum hefur útgerðum með úthlutuðu aflamarki, sem eiga aflahlutdeild, fækkað um 60%. Með uppboði og þeim hugmyndum sem eru hjá Samfylkingu og Viðreisn og Pírötum í bland, þá er verið að tala um gífurlega samþjöppun og það hriktir í stoðum byggðanna í framhaldinu.