149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að eiga í andsvörum við hv. þingmann er stundum eins og að vera raunvísindamaður á ljóðakvöld. Maður er kannski að reyna að fá fram einhverjar staðreyndir en hv. þingmaður fer fögrum orðum um hlutina, hann er orðsins maður og honum er gjarnt að mála orð sín sterkum litum og myndum. En það eru ekkert miklar staðreyndir í þessum loftkenndu ræðum hv. þingmanns.

Ég var að spyrja hv. þingmann út í tekjur sjóðsins, ekki hvað honum fyndist fallegt úti á landi, því að í frumvarpinu er vísað til 10. gr. þessara laga. Þar á að afla teknanna sem standa undir sjóðnum. Og hv. þingmaður, ef þú ljærð mér alla vega annað eyrað: 10. gr. er bráðabirgðaákvæði sem rennur út 31. desember 2019. Þess vegna vona ég að hv. þingmaður virði það við mig að ég skil ekki hvaða tekjur sjóðurinn á að fá eftir að bráðabirgðaákvæðið, sem hann sjálfur leggur til að farið verði eftir, rennur út. Hvernig á þá að fjármagna þetta — og minna um fallega liti á húsum úti á landi, takk?