149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Krónan hefur allt með þetta að gera, segir hv. þingmaður. Það er freistandi að fara út í krónuumræðu og rifja upp orð fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins í Silfrinu um helgina þar sem hann fór yfir evruna og það allt saman. En þannig er þetta á Íslandi að veiðar og vinnsla eru vitanlega nátengd og mörg fyrirtæki, sérstaklega í bolfisksvinnslu, eru að veiða og líka að vinna fiskinn, þó að þetta sé aðskilið. Þó að veiðigjaldið sé ekki lagt á vinnsluna sjálfa þá hefur þetta að sjálfsögðu heildaráhrif á rekstur fyrirtækjanna og getu þeirra til að fjárfesta. Ef fiskurinn er að fara úr landi geta ástæðurnar verið margþættar. Það hefur örugglega eitthvað með gengið að gera, að sjálfsögðu, við skulum ekki fara neitt í felur með það. Það getur líka verið hærri kostnaður, það er alls konar kostnaður á Íslandi sem skiptir líka máli. Launakostnaður er sjálfsagt hærri en í Póllandi eða Rússlandi eða einhvers annars staðar. Það er líka það að þegar veiðigjaldið leggst mjög þungt á, þótt það sé bara á veiðihlutann, þá þarf hann vitanlega að standa undir sér líka. Þegar við horfum á veiðihlutann er samkeppnin mjög ójöfn, t.d. þegar kemur að kostnaði við olíu. Þótt hún sé að lækka núna er útgerðarkostnaður á skipið margfalt dýrari á Íslandi en í Noregi og Rússlandi, svo að dæmi sé tekið.

Það er ólíku saman að jafna, þetta er bæði launakostnaður og veiðigjöld þar sem um er að ræða olíukostnað og annað. Þetta er ekki samanburðarhæft í raun. Ef við ætluðum að stilla veiðunum upp saman þyrftum við að reikna til útgerðarinnar, sem ég held að væri ekki mjög vinsælt á Íslandi, einhvers konar stuðning, því að ríkisstyrkti sjávarútvegurinn í Noregi og Rússlandi er að keppa við okkur, hvort sem það er bara í veiðunum eða hvað. Jafnvægið er ekki til staðar, samkeppnin er ójöfn út af slíkum kostnaði sem er allt annar á Íslandi en í þeim löndum.