149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er vitanlega ein af stóru spurningunum. Byrjum á nýliðuninni, hvernig hún fer fram. Ég held að það sé algerlega rangt að ímynda sér að nýliðun geti farið fram í gegnum einhvers konar innköllun á aflaheimildum og svo með uppboði eða einhverju slíku, ekki nema menn ætli sér að útiloka einhverja hópa frá því að bjóða í. Það er að mínu viti alveg ljóst að fjársterkir aðilar í greininni geta væntanlega boðið hærra en aðrir.

Á sínum tíma hafði ég miklar efasemdir um strandveiðikerfið. Ég held þó að strandveiðikerfið hafi reynst ágætt. Þar hafa menn getað byrjað þótt það sé vitanlega rosalega erfitt, það er mikil fjárfesting sem felst í því. En menn hafa getað byrjað þar og það eru dæmi um að menn hafi farið þar og keypt sér svo aflaheimildir. Vissulega eru þær dýrar, það er alveg ljóst, fyrir þá sem komast yfir þær á annað borð. En hugsanlega gæti verið þáttur í því að stuðla að nýliðun að undirstrika og taka frekar af allan vafa um hversu mikil samþjöppunin getur orðið, hversu mikið menn mega eiga af einstökum aflaheimildum og líka skýra hvernig skyldleikinn eða eignarhaldið geti verið og þess háttar. Samþjöppun er kannski einna helst það sem er vont fyrir nýliðunina.

Varðandi það að sjávarútvegurinn eða veiðarnar séu ekki í alþjóðlegri samkeppni þá er það vitanlega þannig að ef við förum yfir nokkur fyrirtæki sem eru stór og meðalstór þá eru þetta fyrirtæki sem eru í veiðum og vinnslu. Þau eru vitanlega í alþjóðlegri samkeppni þótt segja megi að veiðihlutinn sé svolítið sérstakur, hann er hins vegar í alþjóðlegri samkeppni þegar kemur að kostnaðinum, að sjálfsögðu. Þegar laun og olíukostnaður er miklu hærri á Íslandi en í Noregi eða Rússlandi er auðvitað verið að keppa um það hver getur veitt fiskinn ódýrast eða með sem mestri hagkvæmni. Það er alveg ljóst. Ég ætla að nefna nokkur fyrirtæki: Vísir, Þorbjörn, Fish Seafood, Gunnvör, Oddi Patreksfirði, Valafell Ólafsvík o.fl. Þetta eru allt fyrirtæki sem eru bæði í veiðum og vinnslu. Þetta eru lítil fyrirtæki, meðalstór og stór. Þeir aðilar keppa að fullu við niðurgreiddan ríkisstyrktan sjávarútveg.