149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit svo sem ekki hvort við getum náð saman um það nema þá að beita sömu aðferð og ríkisstjórnarflokkarnir notuðu til að mynda þessa ríkisstjórn, þ.e. að henda öllu sem þeir eru ósammála um til hliðar og semja svo bara um hvernig þeir skipta sætunum sínum. Ég held að nýtingarsamningar séu af því góða. Í raun er það ekki þannig, þó svo að það hafi komið fram í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að Framsóknarflokkurinn hafi fundið upp þessa nýtingarsamninga, þá var lagt til í sáttanefndinni 2010 að sú leið yrði skoðuð sérstaklega. Ég held að það sé vænlegt. Og langflestir í greininni á þeim tíma í það minnsta voru hlynntir því að fara þá leið, að fá fyrirsjáanleika í staðinn fyrir að vera alltaf í óvissu um hvernig starfsemin yrði á næsta ári eða þarnæsta, hvernig veiðigjöld yrðu og allt þetta. Hver sem atvinnugreinin er er erfitt að vera í óvissu og vita lítið um framhaldið. Þess vegna held ég að það sé til bóta ef við getum tekið þann þráð upp aftur. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er leið sem ég held að flestir hljóti að geta sest niður og talað um.

Ég vil hins vegar segja eitt varðandi auðlindagjöldin. Ég ítreka það sem ég sagði í minni ræðu hér: Mér er full alvara með því. Mér finnst ekkert sjálfsagt að ein atvinnugrein greiði fyrir afnot af auðlindinni. Ég sakna þess að hv. þingmenn tjái sig ekki um það hvort þeim finnist það bara eðlilegt. Er eðlilegt að sá sem notar auðlind, alveg sama hvort hún heitir vatn, orka, loft, rafbylgjur eða landið okkar eða hvað sem þetta er, þurfi ekkert að greiða fyrir afnot af auðlindinni en akkúrat þeir sem eru að veiða fisk þurfi að gera það?

Mér finnst þetta vanta inn í þessa umræðu. Ég held að ef við náum henni á það plan að segja: Við ætlum að skilgreina auðlindina okkar, við ætlum að segja hverjir eru að nýta hana og hvort greiða eigi fyrir hana verðum við mögulega farin að tala um allt aðrar tölur sem við getum notað til þess að fara í uppbyggingarsjóð eða eitthvað slíkt. Þá er kannski auðveldara að ná saman um málið ef við værum að tala um málið í heild, allar auðlindir, ekki bara eina.