149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Um þetta verður auðvitað að ræða við hæstv. sjávarútvegsráðherra og stjórnarmeirihlutann, því að það liggur ekkert á og engin hætta er á ferðum.

Þegar ákveðið var í sumar — eða ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið unnið í sumar því að það voru allt aðrar hugmyndir hér í vor — var ekki haft samráð við stjórnarandstöðuna. Það kemur vel fram í greinargerð með frumvarpinu hverjir það voru sem höfðu veg og vanda af frumvarpsgerðinni. Það var ekki stjórnarandstaðan.

Ég hef áhyggjur af því að hagsmunaaðilar hafi mikið að segja um hvernig hlutirnir æxlast nú um stundir. Það á ekki að vera þannig. Ég hef áhyggjur af því. Menn kjósa frekar að rífa mál út í ósætti, vera með hávaða og læti og rifrildi og hnútuköst og vesen og reyna að gera allt tortryggilegt sem gagnrýnt er frekar en að setjast niður og ræða málin og segja: Allt í lagi, við skulum framlengja og það gerist ekkert á þessu eina ári. Og reyna að finna einhvern samhljóm, því að það eru miklu meiri og dýpri grundvallarbreytingar í frumvarpinu en menn vilja vera láta, þótt það sé ekki nema bara, eins og ég fór yfir í ræðu minni, markmiðsgreinin, breytingin á henni, og svo þetta 33% hlutfall sem menn tala um að sé sjálfsagður hlutur. Hvernig fundu menn það út? (Forseti hringir.) Af hverju áttum við að miða við þessi níu ár, frá 2009–2018? Af hverju var ekki miðað við 2012–2018? Hefði það einhverju breytt? (Forseti hringir.) Af hverju erum við að taka inn ár þar sem var nánast ekkert veiðigjald til að skoða þá hluti?