149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:05]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar lagt, þykir mér. Hér mátti skilja hv. þingmann þannig að sú ákvörðun ríkisins að innheimta auðlindagjöld af tiltekinni auðlind en ekki öðrum hyggi nálægt jafnræðisreglunni.

Ég bjóst satt að segja við því að hv. þingmaður myndi í enda ræðu sinnar lýsa yfir andstöðu við frumvarpið, því að það er eina rökrétta afleiðingin af því að halda slíku fram. Ef hann myndi gera það og það myndi falla úr gildi myndi slíkt ekki gilda lengur, þá væri ekki einn iðnaður umfram annan sem þyrfti að greiða auðlindagjöld.

Því langar mig að spyrja hvernig hv. þingmaður réttlæti það fyrir sjálfum sér. Ef hann gerir það með einhverjum hætti og ef hann telur að jafnræðisreglan kveði á um að innheimta þurfi gjöld af öllum auðlindum, hvaða skatta ætlar hv. þm. Óli Björn Kárason að leggja til næst til að uppfylla þá jafnræðiskvöð sem hann hefur nefnt í ræðustól?