149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því fyrr í dag að hæstv. forsætisráðherra yrði hér við umræðuna. Ég hafði fyllsta skilning á því að hún þyrfti að sinna embættiserindum sínum og halda boð eða vera viðstödd boð vegna mikilvægrar kvennaráðstefnu sem er verið að halda og sjálfsagt að verða við því.

Það er hins vegar þannig að boðið er búið og síðan hitt að ég undirstrikaði það að ég hefði líka skilning á því að hún þyrfti ekki að koma hingað í salinn til að sitja og svara fyrirspurnum heldur myndi ég una því að hún myndi sitja við umræðu á morgun. Ég tel mikilvægt að fá það fram hvort ekki sé ljóst að forsætisráðherra verði viðstödd umræðuna á morgun, m.a. í ljósi þess sem umræðan hefur leitt í ljós.

Það væri gott og mikilvægt (Forseti hringir.) að forystufólk Vinstri grænna kæmi og skýrði mál sitt, stefnu og sjónarmið í þessu mikilvæga máli og svaraði ákveðnum spurningum, því að mér finnst það kannski líka tala svolítið út og suður. Ég óska því eftir skýrum svörum frá forseta