149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að blanda mér í þetta en hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kveikti í mér, því að það er ekkert nýtt að kallað sé eftir því að forystumenn stjórnmálaflokka séu í þingsal við hin ólíklegustu mál. Hægt er að finna dæmi um það, held ég, í öllum flokkum. Hér hafa menn staðið og heimtað hinn og þennan í salinn. Ég hugsa að meira segja sé hægt að finna dæmi um slíkt í flokki hæstv. forsætisráðherra að þess hafi verið krafist að ráðherra sem var úti í bæ eða jafnvel erlendis drifi sig heim til að vera í þessum sal. (Gripið fram í.) Ég skil ekki þær athugasemdir sem hafa komið fram, ég verð að segja það. Það er ekkert óeðlilegt, líka miðað við umræðuefni dagsins, að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fari fram á þetta. Ég skil ekki svona taugaveiklun.