149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar sem mér fannst vera skýrt. Við erum sammála um að greiða eigi afgjald fyrir sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að sjávarútvegurinn sé gríðarlega mikilvæg atvinnugrein, allra mikilvægasta atvinnugreinin hér á Íslandi. Við erum með meiri framleiðni í sjávarútvegi en í öllum öðrum atvinnugreinum. Það kemur ekki síst til vegna þess að kerfið í heild sinni er mjög sterkt og öflugt.

Við höfum komið upp kvótakerfi, við erum með sjálfbærar fiskveiðar, ábyrgar fiskveiðar. Við erum með framsal aflaheimilda sem hefur haft mikla þýðingu, að vissu leyti sársaukafulla þýðingu fyrir ákveðin landsvæði landsins. Á móti kemur að þjóðhagsleg hagkvæmni veiðanna hefur verið gríðarlega mikil og leitt af sér skynsamlega fjárfestingu — eða getu til að fjárfesta í greininni. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli fyrir okkur og alla landsmenn að hafa þannig grein. Það skiptir máli að atvinnugreinin sem slík búi við ákveðinn fyrirsjáanleika.

Fram hefur komið af hálfu Sjálfstæðisflokksins að ótímabundinn réttur sé eðlilegur. Að mínu mat er þá verið að sneiða fram hjá því grundvallarprinsippi að um sé að ræða sameign þjóðarinnar. Með því að segja að rétturinn sé ótímabundinn er óvissan — og það eru vond skilaboð út í greinina — fyrir greinina gríðarlega mikil. Eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu hér í dag getur þingið á einu augabragði kúvent öllu kerfinu.

Er hv. þingmaður sammála mér um að sú nálgun sem við höfum, um tímabundna samninga í 20 ár, veiti meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika fyrir útgerðina en felst í ótímabundnum samningum? Ég er þá ekki að tala um samfélagslega óréttlætið (Forseti hringir.) sem snýr að ótímabundnum samningum heldur einfaldlega því sem snýr að útgerðinni sjálfri og þeirri óvissu sem fylgir slíku.