149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt verið að lýsa hinu hefðbundna íslenska fyrirtæki, líka þeim sem eru á landi, þegar hann talaði um að þetta væri bara heiðarlegur rekstur þar sem menn rétt næðu að borga sér laun og greiddu sér engan arð. Það er gömul saga og ný.

En varðandi byggðafestu er fullt af aðgerðum sem við nýtum til að halda byggðum á lífi í gegnum útgerð. Við erum með byggðakvóta, við erum með alls konar tilfærslur. Þær geta alveg átt rétt á sér. En finnst þingmanninum ekki alveg jafn áhugavert að skoða, í stað þess að alltaf sé verið að dæla í útgerðarmenn til að halda uppi byggð á viðkomandi stöðum, hvort ekki væri betra fyrir sveitarfélögin að fá þessa peninga og geta þá kannski þróað annars konar atvinnulíf? Það að er ekki víst að það henti öllum litlum stöðum á landi að lifa (Forseti hringir.) sams konar lífi og var gert árið 1900.