149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:07]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Tilvera okkar varaþingmanna er undarlegt ferðalag og ég hafði nú búist við því að hápunktur þeirrar tilveru væri einmitt að horfa á hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé flytja þrusuræðu þar sem hann myndi færa rök fyrir eindregnum stuðningi sínum við þetta frumvarp sem hefur svo berlega komið fram í fjölmiðlum. Ég hef satt að segja dáðst að þeirri ástríðu sem þar hefur verið.

En nú hef ég verið rændur þeirri gleði og verð því að bíða betri tíma, annaðhvort fylgjast með í sjónvarpi eða bara alls ekki, því að þingmaðurinn virðist horfinn alfarið af mælendaskrá. Ég velti fyrir mér: Hvaða náttúruafl er það sem hefur valdið feimni hjá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé? Hvaða náttúruafl gerir að verkum að hann fyllist einhverri feimni og kýs að koma ekki upp og tala?

Ég spyr að því. Ég býst nú ekki við að forseta hafi svörin en ég sakna þess (Forseti hringir.) að geta ekki átt hér samræður og orðastað við hv. þingmann. (Gripið fram í: Það skil ég vel …)