149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:15]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill segja áður en næsta umferð hefst að hann er að því leyti til sammála því sem hér kemur fram, að það verður að setja við því skorður hversu mikið er hringlað með mælendaskrá. Forsetar hafa almennt verið liprir gagnvart því að færa menn aðeins til ef þannig stendur á hjá þeim en það er augljóst mál að það getur farið í hreint óefni ef of mikil brögð verða að slíku. Þannig að frá og með þessum hvatningarræðum mun forseti verða stífari á því að gera ekki breytingar á mælendaskrá. Það bar á þessu við 2. umr. um fjárlög og þetta ágerist í þessari umræðu um veiðigjöld og nokkurn veginn nóg komið. Héðan í frá verður mjög stíft aðhald að því að mælendaskráin sé eins og hún er uppsett frá byrjun. En það hefur þó það í för með sér sem þingmenn vita, að þeir verða að vera á staðnum ella hverfa þeir af mælendaskrá.